Ber að miða á stærsta hluta sýnilegs líkamshlutar

Skotvopn lögreglu eiga almennt að vera geymd í læstri hirslu.
Skotvopn lögreglu eiga almennt að vera geymd í læstri hirslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í reglum um valdbeitingu lögreglu er ætlast til þess að lögreglumenn miði á fætur eða annan stað sem sé líklegur til að valda sem minnstum skaða, ef þeir ætla að beita vopni. 

Stefán Örn Arnarson, varaformaður Landssambands lögreglumanna, segir hlutverk félagsins að styðja félagsmenn sína persónulega í málum á borð við Egilsstaðamálið: „Það sem við fyrst og fremst gerum er að athuga hvernig er hlúð að viðkomandi og í hvaða ferli málið er og þannig bjóða fram þá aðstoð sem við getum haft milligöngu um. Sem er þá lögfræðihjálp og sálfræðihjálp.“

Legið á spítala frá því á fimmtudag

Málið hófst með skotárás manns á fimmtugsaldri í götunni Dalseli á Egilsstöðum síðasta fimmtudag. Þegar lögreglumenn komu á vettvang beindi sá vopnaði hólknum að lögreglu og skaut. Lögregla hafi í kjölfar þessi beint þeim fyrirmælum til mannsins að sleppa vopninu en hann hafi ekki hlýtt því og þá hafi lögregla skotið manninn.

Maðurinn er nú í gæsluvarðhaldi og hefur dvalið á spítala frá því á fimmtudagskvöld. Héraðssaksóknari er með málið til rannsóknar, bæði þann þátt sem snýr að valdbeitingu lögreglu og meintu broti mannsins gegn valdstjórninni.

Í reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun vopna kemur fram að lögreglustjóri geti í samráði við ríkislögreglustjóra ákveðið að skammbyssur séu hafðar með í lögreglubifreið í sérstökum tilfellum. Þá skal tryggilega gengið frá þeim vopnum og skotfærum.

Allir lögreglumenn fá grunnþjálfun 

Allir lögreglumenn eiga að hljóta grunnþjálfun í skotvopnareglum og meðferð vopna hjá Lögregluskóla ríkisins. Þeir sem standast lágmarkskröfur útskrifast þá með skírteini fyrir viðkomandi skotvopn. Það fellur svo í hlut lögreglustjóra að tryggja að lögreglumenn við embætti hans viðhaldi þekkingu á vopnareglum og fái nauðsynlega viðhaldsþjálfun í notkun vopnanna.

Stefán Örn segir sambandið hvetja lögreglumenn til endurmenntunar í hvívetna: „Við hvetjum til þess að lögreglumenn séu þjálfaðir og fái þjálfun reglulega. Ekki bara í meðhöndlun skotvopna heldur alhliða þjálfun. Okkar mat er að þetta sé í góðum farvegi.“

Lögreglustjórar geta gefið fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnbúast ef talið er að fyrirliggjandi verkefni krefjist þess, svo sem ef lögreglumaður þarf að eiga við mann sem ástæða er til að ætla að sé vopnaður og líklegur til að nota vopn.

Hús sem skotið var á í Dalseli á Egilsstöðum.
Hús sem skotið var á í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Aðeins vopn ef önnur úrræði eru ekki tiltæk

Þá megi skotvopnum aðeins beita gegn manni þegar önnur úrræði séu ekki tiltæk og brýna nauðsyn beri til. Þá þarf lögreglumaður að gefa þeim aðvörun sem ógnin stafar frá og tilkynna að vopni verði beint til að framfylgja aðgerðum. 

Ef til þess kemur að lögregluþjónn þurfi að beita vopni gegn borgara, sem á aðeins að gera í ýtrustu neyð, skal lögreglumaður miða á stærsta hluta þess líkamshluta sem honum er sýnilegur. Helst í fætur viðkomandi eða líffæri sem myndi ekki valda viðkomandi varanlegu heilsutjóni eftir skotið. Markmiðið er að takmarka þann skaða sem hlýst af notkun vopnsins: „Öll skot í líkama manns geta valdið dauða eða alvarlegu líkamstjóni.“ 

Ástand þarf að vera orðið mjög alvarlegt

Í athugasemdum með reglugerðinni er eftirfarandi dæmi tekið um ástand sem sé svo alvarlegt að skilyrði fyrir beitingu skotvopna sé fyrir hendi: „Ef t.d. stórhættulegur afbrotamaður eða geðsjúkur maður notar sjálfur eða er í þann mund að nota skotvopn eða annað lífshættulegt vopn, getur verið réttlætanlegt að lögreglumaðurinn noti sjálfur skotvopn, þó að það geti stofnað öðrum mönnum í hættu.“

Lögregla og yfirvöld hafa verið fámál um ýmsa þætti málsins og því er ekki vitað hvar skotið hæfði byssumanninn, né heldur hver aðdragandi málsins var nákvæmlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert