Hæstiréttur samþykkti í gær að taka fyrir mál Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs, gegn Arnþrúði Karlsdóttur, eiganda og útvarpsstjóra Útvarps sögu. Landsréttur hafði áður snúið niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu við og sýknað Arnþrúði.
Mál Reynis gegn Arnþrúði snýst um þrenn ummæli sem hún viðhafði í útvarpsþætti og Reynir krefst að séu dæmd dauð og ómerk.
Héraðsdómurinn varðaði þrenn ummæli sem Arnþrúður lét falla í útvarpsþætti. Hann ómerkti tvenn þeirra, það voru:
„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“
„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“
Þá gerði Héraðsdómur Arnþrúði að greiða Reyni 300.000 krónur í skaðabætur.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Arnþrúðar hefðu falið í sér gildisdóm og lýst skoðunum fremur en staðhæfingum um raunverulegar staðreyndir miðað við samhengi orðanna.
Litið var til þess að Reynir hefði verið gildandi í fjölmiðlaumfjöllun í áratugi og að „fjölmiðlar undir hans stjórn ekki veigrað sér við að fjalla með hvössum og gagnrýnum hætti um menn og málefni líðandi stundar,“ samkvæmt dóminum. Ummæli Arnþrúðar væru því ekki „tilefnislaus með öllu“.
Landsréttur taldi ummælin einnig hluti af þjóðfélagsumræðu um fjölmiðla og netmiðla. Það væri nauðsynlegt að játa fólki rúmt frelsi til að tjá sig um slíkt. Arnþrúður var sýknuð af öllum kröfum Reynis og málskostnaður felldur niður.
Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi, einkum hvað varðar mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Af þeim sökum samþykkir Hæstiréttur að taka málið fyrir.