Ekki er búist við að hlaupið í Skaftá muni valda miklum skemmdum en Veðurstofa fundaði í dag vegna stöðunnar og var ekki talin þörf á því að rýma svæði eða loka vegum, að sögn Huldu Rós Helgadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Veðurstofa tilkynnti í dag að hlaup væri hafið í Skaftá og þykir líklegt að upptök þess séu úr Vestari-Skaftárkatli.
„Við erum með vakt allan sólarhringinn og fylgjumst vel með þessu. Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi sem eru viðbrögð þeirra við svona atburðum. Það er ekki búist við því að þetta verði mjög stórt en við bregðumst við ef það stækkar meira en búist var við. Þá þyrfti mögulega að grípa til frekari aðgerða,“ segir Hulda.
Segir hún jafnframt mestu hættuna nú stafa af gasmengun og eru því vegfarendur beðnir um að halda sig frá upptökum árinnar sem og lægðum í landslagi.
„Það er hægur vindur á svæðinu og þá er líklegra að gas setjist fyrir í lægðum og það getur orðið hættulegt fólki. Gasmengunin ætti ekki að vera í miklu magni við Kirkjubæjarklaustur en Umhverfisstofnun er komin með mæla þar til að mæla brennisteinsvetni.“
Búist er við að hlaupið nái hámarki á næstu dögum en lítil hlaup eiga það til að dreifast yfir lengri tíma að sögn Huldu. Ólíklegt þykir þó að áin flæði yfir bakka sína við Kirkjubæjarklaustur.