Nokkrar góðar dýfur í blíðunni

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Þessir strákar stungu sér til sunds í Húsavíkurhöfn um klukkan sjö í gærkvöldi og virtist ekki væsa um þá á hafnarbakkanum eftir dýfurnar í kaldan sjóinn. Blíðviðrið fyrir norðan kom ekki heldur að sök, en hitinn á Húsavík náði tæpum tuttugu stigum á hádegi í gær.

Stökk í sjóinn hafa enda verið vinsæl iðja hjá yngri kynslóðinni á Húsavík undanfarnar vikur, á sama tíma og fádæma veðurblíða hefur leikið við landsmenn á norðan- og austanverðu landinu.

Áfram verður hlýjast á Austurlandi í dag, þar sem hiti er talinn geta náð 21-22 stigum. Búast má við súld eða rigningu af og til sunnan- og vestanlands, en bjart með köflum norðan- og austantil á landinu. Þá er gert ráð fyrir að allt fram á sunnudag verði hlýjast á Norðausturlandi.

Í byrjun næstu viku lítur aftur á móti út fyrir suðaustlæga eða breytilega átt og vætu víðast hvar á landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert