Tólfan, stuðningsmannasveit knattspyrnulandsliðanna, stendur með þolendum. Það segir Hilmar Jökull Stefánsson, einn frammámanna Tólfunnar, að sé alveg á hreinu.
Sveitin ætlar að senda skýr skilaboð á morgun, á leik karlaliðs Íslands við Rúmeníu og sitja þögul fram að 12. mínútu leiksins til þess að styðja við þolendur ofbeldis.
„Hugsunin er í raun að sýna það táknrænt að við í Tólfunni, sem höfum gríðarlega rödd innan íþróttarinnar, viljum veita þolendum rými til þess að tjá sig og segja sína sögu,“ segir Hilmar Jökull við mbl.is.
Tólfan sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þetta var tilkynnt auk þess sem fólk er hvatt til þess að koma með hvers kyns varning með sér á leikinn, borða Bleika fílsins, „Fokk ofbeldi“ húfur og þar fram eftir götunum.
Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu, vakti nýverið athygli fyrir að bera einmitt slíkt höfuðfat, í viðtali við fjölmiðla eftir leik liðsins við Leikni Reykjavík í efstu deild.
Eins og fyrr segir mun Tólfan sitja þögul fram á tólftu mínútu leiksins á morgun og veita þannig þolendum ofbeldis táknrænt rými til þess að tjá sig óáreitt.
Hilmar segist vona að fólk muni taka þátt í þeim gjörningi en hann segist einnig vona að fólk taki undir með Tólfunni á tólftu mínútu þegar takturinn verður sleginn fyrir víkingaklappið fræga.
Eins og þekkt er stýrir Tólfan víkingaklappi tvisvar á meðan landsleikjum stendur, einu í fyrr hálfleik og einu í þeim síðari.
„Það hefur verið hefð hjá okkur að taka fyrsta víkingaklappið á tólftu mínútu og við munum gera það að þögninni lokinni,“ segir Hilmar.
Af því þetta eru engu að síður mikilvægir landsleikir og öll höldum við áfram með Íslandi, ekki satt?
„Jú, algjörlega. Þeir gerendur sem eru í hópi landsliðsins verða bara að taka ábyrgð gjörða sinna og taka þá ekki þátt á meðan komist er að niðurstöðu hvort þeir eigi heima þarna eða eigi afturkvæmt eða hvað,“ segir hann.