Færanlegar kennslustofur í uppsetningu

Unnið er að uppsetningu færanlegra kennslustofa á lóð Fossvogsskóla.
Unnið er að uppsetningu færanlegra kennslustofa á lóð Fossvogsskóla. Eggert Jóhannesson

Vinna við uppsetningu færanlegra kennslustofa fer nú fram á lóð Fossvogsskóla en umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stefnir að því að stofurnar verði komnar í gagnið föstudaginn 17. september næstkomandi.

Vonir standa til að hægt verði að flytja 1.-4. bekk í kennslustofurnar um leið og uppsetningu á þeim lýkur en kennsla í ofangreindum árgangum fer nú fram í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Þetta staðfestir Árni Freyr Thorlacius Sigurlaugsson, aðstoðarskólastjóri Fossvogsskóla, í samtali við mbl.is.

„Þau hjá umhverfis- og skipulagssviði segja að þetta verði tilbúið þá og þá myndum við sennilega hefja kennslu þar strax mánudaginn eftir þann 20. september. Auðvitað vonumst við þó til þess að geta hafið kennslu þar fyrr,“ segir Árni.

Í heildina verða settar upp tíu færanlegar kennslustofur sem eiga að rúma þau 200 börn í 1.-4. bekk sem sækja nú kennslu í húsnæði Hjálpræðishersins. 

„Stofurnar eru í einingum og við eigum að fá 24 einingar. Þegar ég fór þarna niðureftir í morgun var búið að setja upp átta einingar. Þessum einingum er í rauninni bara skellt saman og þeim raðað upp eins og legói. Ein eining verður fyrir salerni og svo er búið að gera ráð fyrir plássi fyrir stjórnarhlutann og kaffistofu,“ segir Árni.

Inntur eftir því segir Árni líklegast að eldaður verði hádegismatur fyrir börnin í Korpuskóla, hann svo keyrður niðureftir í færanlegu kennslustofurnar þar sem börnin munu borða.

„Auðvitað er það ekki draumastaða en við höfum reynslu af því í Covid. Þá þurftum við í smá tíma að láta nemendur borða í stofunum sínum. Það sýndu allir því skilning.“

Árni segir framvindu í máli Fossvogsskóla hafa reynt mikið á alla sem eiga í hlut.

„Þetta er bara mjög leiðinlegt því mér þykir vænt um þennan skóla og þetta reynir mikið á. Ég vona innilega að tímasetningin sem umhverfis- og skipulagssvið leggur upp með standist,“ segir hann. „Það fer alveg ofsalega vel um okkur niðri í kastala og þeir sem stjórna þar eru algerir snillingar en það húsnæði er auðvitað ekki ætlað undir kennslu fyrir utan hvað það er stór galli að þurfa fara þangað með rútu," segir hann. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert