Fái einnig tveggja ára ákvæði niðurfellt

Frá Talstöðinni í Kópavogi.
Frá Talstöðinni í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félag talmeinafræðinga á Íslandi fagnar ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að fella úr gildi tveggja ára starfsreynsluskilyrði sjúkraþjálfara og með því tryggja sjúkratryggðum niðurgreidda þjónustu.

„Með þessari aðgerð ráðherra er áframhaldandi nýliðun einnig tryggð í stétt sjúkraþjálfara. Í rammasamningi talmeinafræðinga við Sjúkratryggingar Íslands er að finna sambærilegt ákvæði um tveggja ára starfsreynslu sem hamlað hefur nýliðun í stéttinni,“ segir í tilkynningu félagsins.

Fram kemur að talmeinafræðingar hafi um nokkurt skeið barist fyrir niðurfellingu ákvæðisins en án árangurs og því hafi biðlistar eftir þjónustu talmeinafræðinga lengst fram úr hófi.

„Félag talmeinafræðinga á Íslandi hefur fulla trú á því að jafnræðis verði gætt meðal heilbrigðisstétta og að skjólstæðingum talmeinafræðinga verði tryggt sambærilegt aðgengi að þjónustu eins fljótt og auðið er,“ segir einnig í tilkynningunni.

„Félag talmeinafræðinga á Íslandi væntir þess að fá tveggja ára starfsreynsluákvæðið niðurfellt líkt og sjúkraþjálfarar. Þannig má koma í veg fyrir að tvöfalt greiðslukerfi í talmeinaþjónustu raungerist og stuðlað verði að áframhaldandi samningssambandi stéttarinnar við Sjúkratryggingar Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert