Fjöldi fólks leitar að fjallgöngumanni

Seyðisfjörður og Strandartindur.
Seyðisfjörður og Strandartindur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir á Austurlandi voru kallaðar út um hádegisbil í dag er lögreglu barst aðstoðarbeiðni vegna manns sem haldið hafði í fjallgöngu frá Seyðisfirði á Strandartind í morgun. Leit hefur staðið yfir í dag af hálfu björgunarsveita og er gert ráð fyrir að henni muni fram haldið í kvöld og nótt.

Maðurinn var einn á ferð en félagar hans sem biðu hans á Seyðisfirði höfðu þá misst við hann símasamband. Á bilinu fimmtíu til sjötíu björgunarsveitarfólks leita mannsins.

Vel þjálfaður mannskapur kallaður út

„Um miðjan dag var talið að hann væri týndur og það var farið að grennslast fyrir þarna á svæðinu og leitað með drónum sem bar ekki árangur. Þá var kallaður út vel þjálfaður mannskapur úr björgunarsveitum frá Norðausturlandi og Austurlandi,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Á þessu svæði þar sem hann hafði sést síðast voru mikil brattlendi og klettar þannig það þurfti fólk sem er sérstaklega þjálfað til að vinna í svoleiðis aðstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert