Önnur kona stígur fram vegna Kolbeins

Önnur stelpa hefur stigið fram og greint frá ofbeldi af …
Önnur stelpa hefur stigið fram og greint frá ofbeldi af hendi Kolbeins Sigþórssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Helga Jensdóttir hefur stigið fram og greint frá því að Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður í fótbolta, hafi beitt hana ofbeldi sama kvöld og hann mun hafa ráðist að Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, á skemmtistaðnum b5 árið 2017.

Jóhanna kom fram í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í kvöld og lýsti þar atburðarásinni.

Þórhildur Gyða greindi frá sinni upplifun í síðustu viku þar sem hún lýsti því að landsliðsmaður hefði beitt hana og aðra stelpu ofbeldi. Hingað til hefur ekki legið fyrir hver sú stelpa var. 

Marblettir og áverkar

Að sögn Jóhönnu hafði Þórhildur leitað til hennar vegna ógnandi tilburða Kolbeins á skemmtistaðnum. Jóhanna hafi þá ákveðið að blanda sér í málið og viljað að Kolbeinn bæði hana afsökunar á framkomu sinni.

Að sögn Jóhönnu réðst hann þá að henni með orðum og ósæmilegri hegðun svo hún ákvað að ræða við dyraverðina.

Á leiðinni út hafi svo komið til þess að sódavatn Jóhönnu slettist á Kolbein sem hafi við það orðið reiður, gripið í hana og dregið hana til hliðar. 

Jóhanna segist hafa hlotið marbletti og áverka sem ekki hafi farið fyrr en nokkrum vikum eftir samskiptin þeirra á milli.

Afsökunarbeiðnin ekki lengur gild

Ákvað Jóhanna að koma fram í kjölfar yfirlýsingarinnar sem Kolbeinn sendi frá sér í gær þar sem hann tekur fram að hann hafi ekki kannast við að hafa beitt ofbeldi eða áreitt stelpurnar.

„Ég var sár og mér leið í rauninni eins og þessi afsökunarbeiðni væri ekki lengur gild. Af því hann segir þarna að hann hafi ekki beitt okkur ofbeldi. En ég verð að setja spurningamerki við hvar línan er dregin þarna við að beita ofbeldi. Þar sem ég var með áverka eftir hann í einhverjar vikur og mér skilst að Þórhildur hafi líka verið með áverka,“ er haft eftir Jóhönnu í umfjöllun Vísis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert