Fjármagn hefur verið tryggt til að hægt verði að ganga í viðgerðir og endurbætur á yfirlæknabústaðnum á Vífilsstöðum en áætlaður heildarkostnaður við utanhússviðgerðir eru í kringum 120 milljónir króna, samkvæmt greinargerð sem unnin var í ársbyrjun á vegum Ríkiseigna. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á þessu ári.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanni Miðflokksins. Sigmundur vildi fá að vita hvað hefði verið gert til að vernda eða gera upp læknisbústaðinn á Vífilsstöðum.
Yfirlæknabústaðurinn var færður í umráð Ríkiseigna frá Landsspítalanum til að hægt væri að tryggja varðveislu eignarinnar en ástand hennar er lélegt og hefur hún staðið ónotuð í um árabil, að því er kemur fram í svari ráðherra.
Var Ríkiseignum falið það verkefni að kanna ástand húsa á Vífilsstöðum en þar standa fjórar eignir, gamla heilsuhælið, fjósið, mótorhúsið og yfirlæknisbústaðurinn, sem eru friðaðar samkvæmt lögum um menningarminjar en eignirnar eru allar yfir 100 ára.