Jón Sveinbjörnsson, prófessor emeritus við guðfræðideild Háskóla Íslands, lést 1. september sl. 93 ára að aldri.
Jón fæddist í Reykjavík 27. júlí 1928, sonur Sveinbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns og Þórunnar Bergþórsdóttur. Jón lauk fil. kand.-prófi í grísku, trúarbragðafræðum og heimspeki frá Uppsalaháskóla árið 1955, cand. theol.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1959 og stundaði framhaldsnám í grísku og nýjatestamentisfræðum við Uppsalaháskóla og Háskólann í Cambridge á Englandi.
Jón varð lektor í grísku við guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1966, dósent 1971 og skipaður prófessor í nýjatestamentisfræðum 1974. Hann lét af störfum 1998 fyrir aldurs sakir en hélt áfram þýðingarstörfum. Jón var tvívegis forseti guðfræðideildar og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands.
Hann leitaðist við að laga nám í guðfræði að kröfum nýrra tíma og tileinkaði sér kennsluhætti sem tíðkuðust við erlenda háskóla. Hann einbeitti sér að biblíurannsóknum og þýðingarfræðum og kynnti nýjustu aðferðir og tækni á því sviði. Hann nýtti þessar aðferðir í starfi sínu við þýðingu Nýja testamentisins og Apokrýfra bóka Gamla testamentisins um áratugaskeið en um þá reynslu ritaði hann m.a. grein í Lesbók Morgunblaðsins í október 2007. Jón var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 2000.
Jón bjó nánast alla ævi sína í Ártúnsbrekku við Elliðaár, og nýtti hverja lausa stund við trjárækt og umhirðu í skógarlundi sínum sem faðir hans hóf ræktun á fyrir nær 90 árum. Skógurinn er í dag eitt af kennileitum Elliðaárdalsins.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Guðrún Magnúsdóttir. Börn þeirra eru Sveinbjörn, Þórunn Bergþóra, Magnús Bjarni, Halldór og Ingibjörg.