Dópaður ökumaður keyrði á fullan ökumann

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður, sem lögreglu grunar að hafi verið undir áhrifum fíkniefna, ók í gærkvöldi á rafhlaupahjól með þeim afleiðingum að ökumaður hjólsins, sem einnig er grunur að hafi ekið undir áhrifum, þurfti á bráðamóttöku.

Hann var fluttur þangað með sjúkrabíl, hafandi hafnað uppi á framenda bílsins, en farþegi á hjólinu skall í götuna og slapp ómeiddur.

Ökumaður bílsins var sömuleiðis ómeiddur en auk gruns um að hann hafi ekið undir áhrifum fíkniefna var hann einnig grunaður um vörslu fíkniefna.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla.

Tvö innbrot

Tilkynnt var um húsbrot þegar klukkan var gengin um 20 mínútur í þrjú í nótt, og segir í tilkynningu lögreglu að maður hafi farið inn um ólæstar dyr á heimili í Kópavogi og stolið þar yfirhöfn og síma. Hann var handtekinn skömmu síðar og var mununum skilað til eigenda.

Hann var látinn gista í fangaklefa í nót vegna annarlegs ástands og vegna óuppgerðra saka við lögreglu.

Þá var sömuleiðis tilkynnt um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í Garðabæ. Brotist var inn í þrjár geymslur og voru verðmæti tekin úr einni þeirra.

Loks var tilkynnt um ökumann í Grafarvogi sem grunaður er um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann er grunaður um ítrekaðan akstur án ökuréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert