Efar að stóreignaskattur standist stjórnarskrá

Samfylkingin kynnti kosningaáherslur sínar réttum mánuði fyrir kosningar, þann 25. …
Samfylkingin kynnti kosningaáherslur sínar réttum mánuði fyrir kosningar, þann 25. ágúst 2021. Logi Einarsson, formaður flokksins, í pontu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfnum þessum skatthækkunaráformum alfarið,“ segir Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, um stóreignaskattshugmyndir Samfylkingarinnar og segir þau ganga gegn stjórnarskrá.

„Skattar á Íslandi eru mjög háir og markmið okkar á að vera að lækka skatta. Þessi áform fara bæði gegn jafnræðisreglunni og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og það á mjög óljósum og veikum grunni.“

Tillögur Samfylkingarinnar um að „innleiða á ný stóreignaskatt á hreina eign umfram 200 milljónir“ hafa vakið athygli, en Vinstri græn hafa tekið undir þau sjónarmið.

Teitur Björn Einarsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi frambjóðandi flokksins …
Teitur Björn Einarsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi frambjóðandi flokksins í Norðvesturkjördæmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stóreignaskattur í Hæstarétti

Hugmyndir af þessu tagi eru ekki ókunnar Samfylkingunni og Vinstri grænum, því ríkisstjórn þeirra flokka árin 2009-2013 lagði bæði á auðlegðarskatt og viðbótarauðlegðarskatt. Um þá var deilt og skotið til Hæstaréttar (í máli nr. 726/2013) hvort þeir stæðust eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Þar töldu stefnendur annars vegar að skattarnir væru svo íþyngjandi (4,75% og 2,75% uppsafnað til þriggja ára) að um eignaupptöku væri að ræða, en einnig væri þeim beint að svo afmörkuðum hópi að skattarnir væru ekki almennir, beindust gegn fámennum hópi og gengju því gegn ákvæði um jafnræði borgaranna fyrir lögum.

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þessi skattheimta væri lögleg, en tók fram að þar væri sérstaklega horft „til þess við hvaða aðstæður lögin voru sett og hvert hafi verið markmið þeirra“. Rétturinn benti á að „...á þeim tíma var við að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum“ eftir bankahrun, eftir að tekjustofnar ríkisins höfðu hrunið, ríkisskuldir snarhækkað og ríkisreksturinn í megnum vandræðum. Fallist var á að skatthlutfallið væri hátt, en að teknu tilliti til allra aðstæðna, sérstaklega þó þess að skattarnir væru tímabundnir til þriggja ára, þá brytu þeir ekki í bága við stjórnarskrárákvæði um eignarrétt eða jafnræði.

Engu gleymt

„Þessi hæstaréttardómur er einstaklega skýr og löggjafinn getur ekki horft fram hjá því, hvað sem hugmyndafræðingum Samfylkingarinnar kann að finnast,“ segir Teitur Björn. „Á þessari stóreignaskattshugmynd eru engin tímamörk og það eru engar þær forsendur í ríkisfjármálum sem Hæstiréttur nefndi sem skilyrði fyrir því að auðlegðarskatturinn stæðist stjórnarskrárákvæði um eignarrétt og jafnræði borgaranna.“

Hann telur tillögu Samfylkingarinnar ganga í berhögg við skilyrði og leiðbeiningu Hæstaréttar. Engin leið er að halda því fram að ríkissjóður búi við viðlíka aðstæður og fyrstu árin eftir bankahrun og ekkert í málflutningi frambjóðenda Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna bendir til þess að slíkur stóreignaskattur eigi sér sérstakar og knýjandi ástæður, hvað þá að hann eigi að vera tímabundinn.

„Það er rétt að almenningur átti sig á því í aðdraganda kosninga, að þó að vinstrimenn hafi engu gleymt og ekkert lært af fyrri stóreignasköttum, þá myndu slíkar hugmyndir hækka skatta hjá þúsundum manns, sem engum öðrum myndi detta í hug að kalla stóreignafólk.“

Teitur segir blasa við að þó ekki væri nema af þeim ástæðum yrði löggjafinn að fara mjög gætilega í sakirnar við álagningu stóreignaskatts. Þar yrði að gæta þess að álagning væri ekki óhófleg, að skatturinn væri nægilega almennur til þess að standast jafnræðisregluna en þó ekki svo almennur að hann missti marks sem stóreignaskattur. Við bætast svo auðvitað pólitísk sjónarmið um að óráðlegt er að skatturinn hitti of marga fyrir í hópi kjósenda, en eins að skatturinn skili nægilega miklu, í peningum mælt eða öðrum markmiðum, til að hann svari kostnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert