Ekki meira vatn safnast saman síðan 1996

Hlaupið í Skaftá náði mögulega hámarki í gær en útlit …
Hlaupið í Skaftá náði mögulega hámarki í gær en útlit er fyrir að það muni halda áfram með sama móti næstu tvo til þrjá daga. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vatnsborðið í Grímsvötnum hefur hækkað mikið undanfarinn mánuð og hefur ekki verið hærra frá því fyrir Gjálpargosið árið 1996. Um 0,75 rúmkílómetrar af vatni hafa safnast þar saman að sögn Eyjólfs Magnússonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Það hefur hækkað í vötnunum um 20 sentimetra á dag síðustu tvær vikur. Við erum að bíða eftir hlaupum en við vitum ekki almennilega hvenær þau skila sér. Vatnshæðin er komin langt umfram það sem við höfum séð í síðustu hlaupum.“

Mannvirki hönnuð til að þola álag

Þessa miklu uppsöfnun segir Eyjólfur að megi rekja til þess að ekki hafi komið hlaup síðan árið 2018. Telur hann þó ólíklegt að næsta hlaup muni valda miklu tjóni þrátt fyrir að vera að líkindum umfangsmeira en þau sem sést hafa undanfarin ár. Segir hann mannvirkin vera hönnuð til að þola mikið álag.

„Þetta yrði ekkert sambærilegt við það sem gerðist 1996. Sá atburður var miklu stærri og þá urðu gríðarlega miklar skemmdir. Hlaupið eitt og sér ætti ekki að hafa neinar stórkostlegar afleiðingar.“

Spurður hvort Íslendingar þurfi að búa sig undir eldgos í kjölfar næsta hlaups segir Eyjólfur það raunhæfan möguleika.

„Þrýstiléttirinn sem verður þegar vatnið fer eykur líkur á því að það gæti gosið. Það er það sem gerðist 2004 og við bjuggumst alveg eins við að það myndi gerast árið 2010, en það varð ekki. Þannig að það er ekkert á vísan að róa, að það fylgi því gos á eftir. Það er sumt sem bendir til þess að eldstöðin sé mögulega tilbúin í gos, annað kannski síður. Það verður eiginlega bara að koma í ljós eftir hlaupið.“

Hlaup í Skaftá náði mögulega hámarki í gær. Að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur náttúruvársérfræðings hefur það haldist nokkuð jafnt síðasta sólarhring. Gæti hlaupið haldið áfram með sama móti í tvo til þrjá daga til viðbótar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka