Gjaldfrjáls hraðpróf eftir helgi

Svandís Svavarsdóttir við byggingarreit Hringbrautarverkefnisins í dag.
Svandís Svavarsdóttir við byggingarreit Hringbrautarverkefnisins í dag. mbl.is/Karítas

„Notkun hraðprófa er enn í bígerð, bæði er varðar húsnæði, mönnun, kaup á hraðprófum og svo framvegis en heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisstofnanir um landið munu annast þessa framkvæmd,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um notkun hraðprófa í samtali við mbl.is.

Þetta eigi við um framkvæmd hraðprófa fyrir fimmhundruð manna viðburði og fyrir smitgát þar sem gert er ráð fyrir að fólk fari í hraðpróf á fyrsta og fjórða degi.

Svandís segist gera ráð fyrir að framkvæmd hraðprófa fyrir smitgát verði komin í fulla framkvæmd eftir helgi. Hvert hraðpróf mun gilda í tvo sólarhringa og verður ekki bundið við ákveðna viðburði.

Aðgengi skipti höfuðmáli

Aðspurð hvort að hún sjái fyrir sér fyrirkomulag eins og í Danmörku þar sem hægt er að leita á sérstakar stöðvar víða um borgir og bæi segir Svandís það koma til greina. 

„Ég held að það skipti miklu máli að þetta verði mjög aðgengilegt. Ég held að fólk muni spyrja sig þeirrar spurningar þegar það veltir fyrir sér að taka þátt í viðburðum að hraðprófin séu þannig að þau sé nánast alltaf á næsta leiti,“ segir Svandís. 

Prófin verði gjaldfrjáls

Hún segir að gjaldfrjást verði að fara í hraðpróf og að samhljómur hafi verið í ríkisstjórninni um það.

„Bæði væri það liprasta og einfaldasta leiðin og það kæmi í veg fyrir að verið væri að mismuna fólki eftir efnahag. Við vorum líka sammála um að líklega verði það meiri ávinningur fyrir ríkissjóð og almenning að nota hraðpróf heldur en að gera það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert