Íbúar í Mosfellsbæ eru margir hverjir ósáttir við stíg sem á að leggja yfir gönguleið á Úlfarsfelli sem þakin er trjárótum, að því er fram kemur á umræðuvettvangi bæjarins á Facebook.
Telja nokkrir þar stíginn spilla fyrir fallegu náttúruumhverfi en Björn Traustason, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, segir þó góða ástæðu liggja að baki framkvæmdunum:
„Þessi leið er í fyrsta lagi orðin ansi varasöm, vegna þess að þarna eru rætur sem verða sleipar í bleytu og ég tala nú ekki um þegar það er komin ísing. Það er ekki hægt að bjóða almenningi að ganga um svæðið vegna slysahættu,“ segir hann. Skógræktarfélagið hefur haft svæðið til umráða í áratugi og hóf þar gróðursetningar árið 1955.
Þá á stígurinn einnig leiða til kirkjugarðs sem fyrirhugað er að byggja við Úlfarsfell, á því svæði sem tilheyrir Reykjavíkurborg. „Þetta mun verða grundvallarstígur til kirkjugarðsins inn á svæðið og í rauninni samgöngustígur fyrir gangandi vegfarendur á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar,“ segir hann.
Björn segir að vangaveltur hafi verið uppi um hvort ráðlegt væri að gera nýjan stíg eða nýta þann gamla en þar sem slysahættan væri mikil á svæðinu hafi niðurstaðan verið að ráðast í endurbætur á stígnum, sem styrkt er af Pokasjóði.
„Þegar þetta er komið verður þetta fallegur stígur í gegn. Fólk er hálfhissa yfir þessu en ég myndi segja að þessir þrír þættir, slysahættan og samgöngurnar frá kirkjugarðinum séu kannski það sem vegur þyngst,“ segir hann að lokum.