Leigubílar víkja á Akureyri

Bifreiðastöð Oddeyrar þarf að víkja fyrir 1. apríl 2022.
Bifreiðastöð Oddeyrar þarf að víkja fyrir 1. apríl 2022. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO, mun þurfa að víkja af lóð sinni fyrir 1. apríl 2022 vegna breytinga á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar og vegna sjónarmiða um umferðaröryggi. Bæjarráð Akureyrabæjar staðfesti þetta á fundi í gær.

BSO var stofnuð 1953 og hefur starfað á sama stað síðan, við Strandgötu á Akureyri. Félagið rekur einu leigubílastöð bæjarins sem og einu sjoppuna í miðbæ Akureyrar. Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að mannvirki leigubifreiðastöðvarinnar hafi verið á bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða uppsagnarfresti frá árinu 1955 og enginn leigusamningur liggi fyrir.

„Við viljum alls ekki fara. Við erum á stað sem er búinn að sýna það og sanna síðastliðin 65 ár, sem þetta hús er búið að vera, að það hafi menningarlegt gildi fyrir marga Akureyringa sem koma hingað daglega. Eins er það mikilvægt fyrir næturlífið,“ segir Margrét Elísabet Imsland Andrésardóttir, framkvæmdastjóri BSO, í samtali við Morgunblaðið.

Kaupmaður á horninu

Margrét segir BSO vilja halda stöðu sinni sem kaupmaðurinn á horninu og leggur áherslu á þau séu eina sjoppan í miðbæ Akureyrar. „Eins og staðan er núna í miðbænum geturðu ekki keypt þér eina kókflösku nema að fara inn á kaffihús,“ segir Margrét.

Margrét segir að þó að tæknin bjóði upp á að geta starfað hvar sem er þá vilji þau vera í miðbænum. „Það þarf að vera hús fyrir fólk þar sem það getur beðið inni, sérstaklega eins og á Akureyri þar sem er harður vetur,“segir Margrét. Aðspurð hvort félagið hafi skoðað annað húsnæði segir Margrét það vera að skoða í kringum sig en eins og nýjasta skipulagið gefi til kynna sé ekki gert ráð fyrir fyrirtækinu neins staðar

Hún segir næsta skref að ræða við lögmenn fyrirtækisins.

Einhugur í bæjarráði

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í samtali við Morgunblaðið að málið hafi verið langan tíma í ferli en vonir standi til að húsnæði finnist í miðbænum þar sem BSO geti haldið áfram rekstri sjoppunnar og leigubílaþjónustunnar. Þá segir hann húsið vissulega eiga langa sögu en nýja deiliskipulagið geri ekki ráð fyrir því og þetta sé því lokaniðurstaða málsins. Einhugur var um málið innan bæjarráðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka