Lögmaður Kolbeins segir ákvörðun KSÍ misráðna

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Kolbeins Sigþórssonar.
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Kolbeins Sigþórssonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hörður Felix Harðarson, lögmaður knattspyrnumannsins Kolbeins Sigþórssonar, segir að hann hafi ekki boðað Þórhildi Gyðu Arnardóttur á fund með stjórn KSÍ né að hann hafi sett fram þagnarskyldusamning. Þá gagnrýnir hann ákvörðun KSÍ um að taka fram fyrir hendur landsliðsþjálfarans og banna þátttöku Kolbeins í verkefnum liðsins. Segir hann ákvörðunina vera einstaklega misráðna.

Í aðsendri grein á Vísi í dag segir Hörður að ummæli Þórhildar Gyðu Arnardóttur, sem steig fram og greindi frá atvikum málsins, um sig séu ekki sönn. Vísar hann þar til þess að Þórhildur hafi sagt að líklega væri það Hörður sem hafi boðað hana til fundar með stjórn KSÍ og að ganga að þagnarskyldusamningi. „Í þessari frásögn er hins vegar ekki eitt sannleikskorn. Undirritaður átti aldrei í samskiptum við konuna, var ekki að vinna fyrir KSÍ í þessu máli, boðaði ekki til fundar með stjórnarmanni KSÍ og bauð henni ekki á nokkrum tímapunkti „þagnarskyldusamning“,“ segir í grein Harðar.

Hörður segir að Kolbeinn hafi á sínum tíma, fyrir fjórum árum þegar málið kom fyrst upp, tekið það alvarlega og leitað aðstoðar hjá sér. Hann hafi beðist afsökunar á hegðun sinni og orðið við öllum kröfum kvennanna um greiðslur og lokið þannig málinu.

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í greininni segir Hörður að stjórn KSÍ hafi nú gripið til „þeirrar fordæmalausu ákvörðunar að taka fram fyrir hendur þjálfara liðsins“ með að banna þátttöku Kolbeins með landsliðinu. Þá hafi sambandið nafngreint Kolbein og það hafi vakið athygli víða um heim og nú sé ákall um að samningi hans verði rift við IFK Gautaborg, þar sem hann spilar nú. Rétt í þessu var reyndar greint frá því að Kolbeinn hafi verið settur í bann hjá liðinu. Hörður segir að með þessari ákvörðun standi Kolbeinn frammi fyrir því að missa hugsanlega lífsviðurværi sitt.

Spyr hann í framhaldinu hvort þetta sé raunverulega það þjóðfélag sem fólk vilji lifa í. „Er það rétt og eðlilegt að einstaklingar séu fordæmdir og útskúfaðir með þessum hætti, án dóms og laga?“ spyr hann og bætir við hvort það sé svo að ferill knattspyrnumanna sé á enda við hvers kyns hugsanlega misfellur eða ásakanir. Svarar Hörður því til að hann telji að ákvörðun KSÍ hafi verið „einstaklega misráðin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert