Náttúruhamfaratryggingar stærsti útgjaldaliðurinn

Ummerki stóru aurskriðunnar eru enn vel merkjanleg þó að bærinn …
Ummerki stóru aurskriðunnar eru enn vel merkjanleg þó að bærinn hafi verið hreinsaður og mörg þúsund tonn aur keyrð úr bænum. Eggert Jóhannesson

Áætlað er að Náttúruhamfaratryggingar Íslands greiði um 1,2 milljarða til þeirra sem urðu fyrir tjóni vegna aurskriðnanna á Seyðisfirði í desember 2020. Er þetta stærsti útgjaldaliður ríkisins í aðkomu þess að enduruppbyggingu Seyðisfjarðar.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanni Miðflokksins. Falaðist Sigmundur eftir svari við því hver aðkoma ríkisvaldsins að endurbyggingu á Seyðisfirði verður eftir aurskriðurnar sem féllu á bæinn.

Í svari Katrínar kemur meðal annars fram að starfshópur hafi verið settur á laggirnar undir forystu forsætisráðuneytisins og er hlutverk hans þríþætt.

  1. Fylgja eftir málum er varða aðkomu ríkisins að hreinsun á svæðinu og öðrum aðgerðum sem styðja við að koma sveitarfélaginu í starfhæft horf á ný.          
  2. Sjá til þess að opinberir aðilar sem hlut eiga að máli hefji undirbúning og framkvæmdir við að koma innviðum samfélagsins í það horf sem það var áður. 
  3. Sjá til þess að opinberir aðilar undirbúi viðbrögð og aðgerðir til lengri og skemmri tíma eins og snjóflóðavarnir, hvernig uppbyggingu menningar- og minjamála skuli háttað o.s.frv.          

Hefur ríkið nú varið rúmlega hálfum milljarði í enduruppbyggingu á svæðinu og í að tryggja almannaöryggi. Fór fjármagnið meðal annars í að tryggja öryggi húsa, gatnagerð, enduruppbyggingu vega, sameiningu farvega, hreinsun, stuðning við fólk og fyrirtæki, minjavernd, færslu húsa og öðru uppbyggingarstarfi. Þurfti þá einnig að efla lögregluna, veita neyðarþjónustu og annan félagslegan stuðning.

Til að tryggja öryggi var mælitækjum og öðrum nauðsynlegum búnaði einnig komið fyrir í hlíðum fyrir ofan bæinn og voru hús sem skilgreind voru á hættusvæði keypt upp.

Hefur jafnframt ákvörðun verið tekin um að verja 215 milljónum króna í atvinnuuppbyggingu á næstu þremur árum. Í tilefni þess var settur upp Hvatasjóður Seyðisfjarðar sem miðar að því að virkja frumkvæði íbúa. Bárust alls 34 umsóknir í sjóðinn og þar af fengu 21 verkefni styrk. Skiptust 55 milljónir króna milli þeirra.

Starfshópurinn hefur enn ekki lokið störfum og liggur því endanlegur kostnaður ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert