Sakar vararíkissaksóknara um óþolendavæna afstöðu

Ólöf Tara sakar vararíkissaksóknara um taka afstöðu gegn þolendum.
Ólöf Tara sakar vararíkissaksóknara um taka afstöðu gegn þolendum. Ljósmynd/Aðsend

Ólöf Tara Harðardóttir, aðgerðasinni og ein þeirra kvenna er standa að baki hópsins Öfga, sakar Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara, um að taka afstöðu gegn þolendum kynferðisofbeldis. Helgi vísar ásökununum á bug og segist ekki hafa tekið afstöðu gegn þolendum.

Ólöf birti fyrr í dag skjáskot á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem fram kemur að Helgi hafi líkað við ummæli undir frétt um mál Þórhildar Gyðu Arnarsdóttir og Kolbeins Sigþórssonar, landsliðsmanns, sem búið var að deila á Facebook. Í ummælunum sem Helgi líkaði við segir „Hörður Felix, lögmaður, rekur málavexti með ágætum. Kjarni máls er hins vegar sá að Þórhildur Gyða og Stígamót stunda fjárkúgun og enginn fjölmiðill lætur sig það varða.“

Í fréttinni sem ummælin vísuðu til ásakar Hörður Fel­ix Harðar­son, lögmaður Kol­beins Sigþórs­son­ar, Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur um að fara með rangt mál í fjölmiðlum, segist hann til að mynda aldrei hafa verið boðaður á fund með KSÍ eða hafa lagt fram þagnarskyldusamning.

Óþolendavæn kvenfyrirlitning

Telur Ólöf óviðeigandi að vararíkissaksóknari hafi líkað við ummæli þar sem Stígamót og þolandi eru ásakaðir um lögbrot. Segir hún þetta jafnframt birtingarmynd feðraveldisins og forréttinda.

„Það er mjög afgerandi þegar vararíkissaksóknari sýnir jafn óþolendavæna afstöðu á netinu. Þetta ætti að vera góð undirstrikun á því hvers vegna þolendur leggja ekki í það að kæra. Þegar háttsettir menn innan réttarkerfisins komast upp með það að þurfa ekki að fela óþolendavæna kvenfyrirlitningu sína. Það þarf að taka til í réttarkerfinu,“ segir Ólöf Tara í samtali við mbl.is.

Segir hún erfitt að horfa á svona afstöðu tekna sem þolandi sjálf og getur hún ímyndað sér að aðrir þolendur upplifi það sama. „Ég get rétt ímyndað mér líka að þetta sé högg fyrir þá þolendur sem hafa farið í gegnum réttarkerfið og ekki fengið þar góða meðferð. Þetta er mjög sorglegt. Maður bara trúir þessu ekki, þetta er svo klikkað.“

Ólöf birti einnig skjáskot þar sem kemur fram að Helgi Magnús hafi líkað við frétt sem hafði verið deilt á samfélagsmiðlinum Facebook frá nýja fjölmiðlinum Fréttin sem ber fyrirsögnina: Þórhildur Gyða Fékk milljónir í miskabætur: „Ég fór í sleik við sugar daddy og addaði 17 ára strák á snap“. Sú færsla virðist þó ekki lengur vera til staðar.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kveðst ekki vera að taka afstöðu

Í samtali við mbl.is kveðst Helgi Magnús ekki vera að sýna afstöðu gegn þolendum með því að líka við ummælin. Tekur hann fyrir þær ásakanir að hann sé með einhverjum hætti að taka hlið gerenda í þessu máli.

„Ég tel þetta ekki sýna afstöðu með einum né neinum. Það felst ekkert í þessu annað en stuðningur við tjáningarfrelsið og að báðir aðilar máls megi skýra sína hlið og ekkert meira. Ef það er einhver umræða í gangi þá er gott að við heyrum allar hliðar máls. Það er bara hluti af eðlilegri skoðanamyndun,“ segir Helgi Magnús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka