Spilað á góðmennsku heilbrigðisstarfsmanna

„Í stað þess að bjóða fólki upp á eðlileg starfsskilyrði …
„Í stað þess að bjóða fólki upp á eðlileg starfsskilyrði er tilhneiging til að ganga á góðmennsku og meðvirkni þess." Ljósmynd/mbl.is

Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og formaður læknaráðs Landspítala, segir ekki eðlilegt að Landspítalinn komist að þolmörkum þegar hópslys verða eða þegar faraldur geisar eins og nú. Það verði að fara láta verkin tala í stað þess að tala um hvað megi betur fara. Þetta kemur fram í viðtali við Steinunni í Læknablaðinu í dag.

Hún segir álag á starfsfólki Landspítala sé gríðarlegt og oft sé þjarmað að deildarstjórum að taka við fleiri sjúklingum þó rúmanýting sé sum staðar yfir 100%.

„Í stað þess að bjóða fólki upp á eðlileg starfsskilyrði er tilhneiging til að ganga á góðmennsku og meðvirkni þess,“ segir Steinunn í viðtali við Læknablaðið.

Ómöguleg staða

Hún segir að erfitt sé að taka ekki aukavaktir eða koma úr sumarfríi vitandi að vinnufélagarnir séu að drukkna úr álagi. Steinunn telur að þessar aðstæður skapi hættu á mistökum og lítið hefur heyrst frá heilbrigðisráðherra varðandi það hver réttarstaða lækna sé ef eitthvað fer úrskeiðis.

„Eins og staðan er núna virðist hægt að setja okkur í hvaða ómögulegu stöðu sem er og samt sem áður láta okkur bera ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis í þeim aðstæðum. Aðstæðum sem helgast af kerfislægum brestum en ekki skorti á fagmennsku einstakra starfsmanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert