Vatnshæðin í Skaftá við Sveinstind hefur farið hægt lækkandi en hlaupið er þó enn í fullum gangi.
Talið er að það hafi náð hámarki einhvern tímann í fyrrakvöld, að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Flogið var yfir svæðið í gær og teknar myndir og í kjölfarið staðfest að hlaupið kom úr vestari katlinum. Böðvar segir slík hlaup yfirleitt ekki taka langan tíma. Hann segist þó ekki enn sjá fyrir endann á hlaupinu. Hann segist ekki heldur hafa heyrt af neinum skemmdum.
Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna hlaupsins og stendur það enn. Í tilkynningu voru ferðamenn varaðir við brennisteinsvetnismengun á svæðinu.
„Það er alltaf möguleiki á einhverri gasmengun nálægt bæði lægðum við ána og við upptökin. Fólk á að forðast þá staði,” segir Böðvar og bætir við að flætt geti yfir fjallvegi í Skaftárdal.
Á vef Veðurstofunnar segir að alls sé vitað um 58 hlaup í Skaftá en Skaftárkatlarnir eru tveir, eystri og vestari, og eru í vestanverðum Vatnajökli. Þeir myndast þar vegna jarðhita sem bræðir jökulbotninn og vatns sem safnast þar saman.
Þegar vatnsþrýstingur er orðinn það hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því hleypur það undan kötlunum. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr vestari katlinum. Að jafnaði hleypur úr hvorum katli fyrir sig á tveggja ára fresti.