Vatnshæðin í Skaftá farið hægt lækkandi

Hlaupið í Skaftá kom úr vestari katlinum.
Hlaupið í Skaftá kom úr vestari katlinum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vatnshæðin í Skaftá við Sveinstind hefur farið hægt lækkandi en hlaupið er þó enn í fullum gangi.

Talið er að það hafi náð hámarki einhvern tímann í fyrrakvöld, að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Flogið var yfir svæðið í gær og teknar myndir og í kjölfarið staðfest að hlaupið kom úr vestari katlinum. Böðvar segir slík hlaup yfirleitt ekki taka langan tíma. Hann segist þó ekki enn sjá fyrir endann á hlaupinu. Hann segist ekki heldur hafa heyrt af neinum skemmdum.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna hlaupsins og stendur það enn. Í tilkynningu voru ferðamenn varaðir við brennisteinsvetnismengun á svæðinu.

„Það er alltaf möguleiki á einhverri gasmengun nálægt bæði lægðum við ána og við upptökin. Fólk á að forðast þá staði,” segir Böðvar og bætir við að flætt geti yfir fjallvegi í Skaftárdal.

Á vef Veður­stof­unn­ar seg­ir að alls sé vitað um 58 hlaup í Skaftá en Skaft­ár­katl­arn­ir eru tveir, eystri og vest­ari, og eru í vest­an­verðum Vatna­jökli. Þeir mynd­ast þar vegna jarðhita sem bræðir jök­ul­botn­inn og vatns sem safn­ast þar sam­an.

Þegar vatnsþrýst­ing­ur er orðinn það hár að farg jök­uls­ins nær ekki að halda aft­ur af því hleyp­ur það und­an kötl­un­um. Hlaup úr Eystri-Skaft­ár­katli eru að jafnaði stærri en hlaup­in úr vest­ari katl­in­um. Að jafnaði hleyp­ur úr hvor­um katli fyr­ir sig á tveggja ára fresti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert