Andlát: Sigrún Gísladóttir

Sigrún Gísladóttir, fv. skólastjóri Flataskóla í Garðabæ.
Sigrún Gísladóttir, fv. skólastjóri Flataskóla í Garðabæ.

Sigrún Gísladóttir, fv. skólastjóri Flataskóla í Garðabæ, lést á líknardeild Landspítalans í Fossvogi sl. mánudag, 1. september. Sigrún var fædd 26. september 1944 í Reykjavík, en ólst upp frá tíu ára aldri í Garðabæ. Foreldrar hennar voru Bjarnheiður Gissurardóttir (1913-2000) og Gísli Ólafsson (1917-2002) fulltrúi hjá tollstjóra.

Sigrún gekk í grunnskóla í Hafnarfirði en þá var enginn skóli í Garðahreppi, eins og byggðin hét þá. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1964 og kennaranámi ári síðar frá Kennaraskólanum. Þá var hún á unglingsárum í ballettnámi og tók þátt í ýmsum sýningum, m.a. í Þjóðleikhúsinu. Hún hóf kennslustörf við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, samhliða því sem hún var flugfreyja hjá Loftleiðum.

Árið 1966 giftist Sigrún Guðjóni Magnússyni lækni. Þau bjuggu á Sauðárkróki 1973-74 þegar Guðjón sinnti starfsskyldum í héraði í læknanámi sínu. Að norðan fluttu þau til Edinborgar í Skotlandi og síðar Stokkhólms í áframhaldandi nám, hvar þau bjuggu til 1980. Eftir heimkomuna varð Sigrún námsstjóri á Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis. Tók haustið 1984 við starfi skólastjóra Flataskóla í Garðabæ og gegndi því til 2004. Jafnhliða því var Sigrún virk í ýmsum félagsmálum, meðal annars á vettvangi Kvenréttindafélags Íslands og starfaði í ýmsum nefndum og ráðum á vettvangi skólamála.

Sigrún var varabæjarfulltrúi í Garðabæ 1984-88 og eftir það bæjarfulltrúi til 1996. Var þá forseti bæjarstjórnar og formaður skipulagsnefndar í átta ár. Sigrún flutti árið 2004 til Kaupmannahafnar þegar Guðjón eiginmaður hennar tók við starfi Evrópuskrifstofu WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Í Kaupmannahöfn sinnti hún lengileiðsögn fyrir íslenska ferðamenn um miðborgina og söguslóðir Íslendinga.

Eiginmaður Sigrúnar, dr. Guðjón Magnússon (f. 1944), lést 2009. Synir þeirra eru Arnar Þór yfirlæknir, f. 1970, og tvíburarnir (f. 1972) Halldór Fannar, eðlisfræðingur og hugbúnaðarsérfræðingur, og Heiðar, hagfræðingur og forstjóri Sýnar. Barnabörnin eru alls 11.

Vinur og ferðafélagi Sigrúnar síðustu árin var Júlíus Sæberg Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Ríkiskaupa, en þau voru samnemendur í MR.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert