„Reykjavíkurborg hefur slegist við okkur í tvö og hálft ár. Þetta er valdníðsla á hæsta stigi. Það er gjá á milli framkvæmdadeildar og skipulagsyfirvalda í borginni. Þegar búið er að gera skipulag og kynna kemur framkvæmdadeildin og gerir það sem henni dettur í hug,“ sagði Hilmar Páll Jóhannesson hjá Loftkastalanum.
Fyrirtækið hefur átt í deilum við Reykjavíkurborg vegna hæðarkóta á lóð sem það á í Gufunesi. Deiliskipulag gerir ráð fyrir sléttri lóð en borgin ákvað að stalla hana. Það er þvert gegn hagsmunum og vilja Loftkastalans. Þeir vilja hafa gólf húsa sinna í sem jafnastri hæð til að auðvelda færslu leikmynda og fleira.
Fyrirtækið keypti þrjár fasteignir og byggingarrétt í Gufunesi árið 2018. Um var að ræða verksmiðjuhús sem áður hýstu hluta Áburðarverksmiðjunnar. Gólfkóti húsanna (hæð gólfs yfir sjó) er mjög svipaður eða frá 8,36-8,4 metrar. Lóðin er um 1.800 fermetrar. Félagið vinnur að nýsmíði, leikmyndagerð, nýsköpun, hönnun og þróun á búnaði fyrir endurvinnslu á frauðplasti.
„Við ætluðum að setja upp leikmyndaverkstæði og lítið stúdíó á lóðinni en við höfum ekki getað haldið áfram þeim framkvæmdum því það er ekki enn búið að gefa út réttan hæðarkóta. Það kemur ekki til greina að hafa 60 sentimetra hæðarmun á gólfinu inni í húsunum,“ sagði Hilmar. Hann segir að deiliskipulagið geri ráð fyrir því að lóðin sé slétt en borgin hafi skipt henni upp í misháa hluta.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.