Ágúst Ingi Jónsson
Gestakomum á völdum stöðum í þjóðgörðunum fjölgaði í sumar miðað við síðasta ár. Í Ásbyrgi nálgaðist gestafjöldinn það sem var 2019, en víðast annars staðar er nokkuð í land að tölum þess árs verði náð.
Í fyrra fóru 320 þúsund ferðamenn um Almannagjá, en útlit er fyrir fjölgun í ár. Árin 2018 og 2019 fóru um 1,3 milljónir ferðamanna um Almannagjá hvort ár. Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segist velta því fyrir sér hvort sá fjöldi sé eftirsóknarverður á stað eins og Þingvöllum.
Á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi hafa Íslendingar verið nánast einir um hituna í sumar en þeir voru 91,5% gesta á tjaldsvæðinu í júlí. Guðmundi Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum, segir að hefðbundnir erlendir „útileguútlendingar“ hafi ekki verið jafn mikið á ferðinni og árin á undan, en þegar rýnt er í tölur kemur þó í ljós að þeir voru umtalsvert fleiri í ár en í fyrra.
Ítarlega er fjallað um fjölda gesta í sumar í þjóðgörðum landsins og rætt við þjóðgarðsverði í Morgunblaðinu í dag.