Lögeglan á Suðurnesjum segir að ferðamaður hafi svo sannarlega lent á villigötum sem ætlaði að Hótel Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann setti áfangastaðinn inn í Google Maps og hélt af stað. Lögreglunni á Suðurnesjum barst svo hjálparbeiðni frá honum og var hann þá kominn inn á þröngan og stórgrýttan vegarslóða á Vogarstapa.
Fram kemur í tilkynningu að hann hafi verið á bílaleigubíl, af gerðinni Toyota Yaris, sem var búinn á því þegar lögregla mætti á vettvang auk þess sem sprungið var á einu dekki.
Að sögn lögreglu kvað ökumaðurinn forritið hafa sýnt sér þennan möguleika á akstri að hótelinu þar sem leiðin væri styttri en aðrar sem í boði voru.
Lögregla aðstoðaði manninn og gerði viðkomandi bílaleigu viðvart.
Þá barst hjálparbeiðni vegna konu sem hafði slasast við gosstöðvarnar í Geldingadali. Hafði hún snúið sig á fæti og var ekki göngufær. Hún var aðstoðuð niður á bílastæði að sögn lögreglu.
Talsvert hefur verið um umferðaróhöpp á undanförnum dögum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Bílvelta varð á Reykjanesbraut við Grindavíkurafleggjara og var ökumaður fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala í Fossvogi.
Þá urðu tvö umferðaróhöpp í Keflavík. Í öðru tilvikinu var bifreið ekið yfir á rauðu ljósi og hafnaði hún inni í hlið annarrar bifreiðar. Ekki urðu slys á fólki.
Enn fremur var ekið utan í vegrið á Reykjanesbraut við Hvassahraun. Bifreiðin var óökuhæf eftir óhappið en engin slasaðist, að því er segir í dagbók lögreglunnar.