Landris við Öskju í fyrsta sinn í áratugi

„Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1.-21. ágúst, …
„Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1.-21. ágúst, 2021. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris og blái sig.“ Kort/Veðurstofa Íslands

Þensla hófst í Öskju í byrjun ágústmánaðar. Um er að ræða fyrsta landris í Öskju í áratugi. Landrisið er ekki mikið en þó markvert, að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. 

Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns nálægt Ólafsgígum, nærri gps-stöð sem sýnir nú landris upp á um það bil fimm sentimetra á mánuði.

„Þetta er markvert að því leyti að þetta er í fyrsta sinn sem við tökum eftir risi síðan í kringum árið 1970,“ segir Salóme. 

Ekki er alveg ljóst hvað veldur landrisinu en það er líklega eitthvert innflæði kviku á svæðinu.

Veðurstofan greindi frá þenslunni á vef sínum í dag. Þar er tekið fram að Askja sé virk eldstöð og þar mælist reglulega skjálftar. Síðast gaus í Öskju árið 1961.  

„Það varð smá hlé á mælingum hjá okkur frá 1972 til 1983 en síðan við hófum aftur reglubundnar mælingar höfum við í raun bara mælt landsig,“ segir Salóme. Nú er staðan önnur. 

Allt of snemmt að spá um eldgos

Í tilkynningu Veðurstofunnar um málið segir: 

„Eldfjöll sýna oft lotubundna virkni þar sem þau liggja svo að segja í dvala með lítilli virkni árum og áratugum saman en inn á milli koma virknitímabil með þenslu, jarðskjálftum og jarðhita. Engin leið er að segja til um það fyrirfram hvernig slík virknitímabil þróast, en algengast er að slíkum tímabilum ljúki án þess að til eldgoss komi.“

Salóme segir allt of snemmt að segja til um það hvort þenslan sé undanfari eldgoss. 

Nánari upplýsingar um eldstöðina Öskju má lesa á islenskeldfjoll.is.

Öskjuvatn blasir við á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Egilsstaða.
Öskjuvatn blasir við á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Egilsstaða. mbl.is/Sigurður Bogi
Ferðamenn við Öskjuop á leiðinni að vatninu mikla.
Ferðamenn við Öskjuop á leiðinni að vatninu mikla. mbl.is/Sigurður Bogi
Öskjuvatn og fremst er gígurinn Víti.
Öskjuvatn og fremst er gígurinn Víti. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka