Styðja við flóttafólk í uppeldi barna sinna

Verkefnið styður við flóttafólk í uppeldi barna þeirra þar sem …
Verkefnið styður við flóttafólk í uppeldi barna þeirra þar sem sérstaklega er tekið til áfallastreitu. AFP

Menntavísindasvið Háskóla Íslands í samstarfi við þrjú lönd í Evrópu hafa undanfarið staðið að aðlögun og rannsókn úrræðis til að styðja við flóttafólk í uppeldi barna sinna þar sem sérstaklega er tekið til áfallastreitu. Verkefnið er fyrsta sinnar tegundar.

„Það er ekki til neitt heildstætt verkefni hérlendis sem er svo sérsniðið að flóttafólki í foreldrahlutverki,“ segir Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en hún heldur utan um verkefnið hérlendis sem fékk styrkveitingu frá Nordplus árið 2018 og frá Erasmus+ 2019.

Berskjaldaður hópur

„Þessi hópur flóttamanna er mjög berskjaldaður og er því í mikilli áhættu á aðlögunarvanda, bæði börnin og fjölskyldan. Við erum því að grípa þann hóp og þjónusta hann með mjög vel rannsökuðum úrræðum,“ segir Margrét og nefnir að fjórar Evrópuþjóðir standa saman að verkefninu, Norðmenn, Danir og Hollendingar, en HÍ leiðir það.

Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Allar þessar þjóðir standa saman að innleiðingu að mjög þekktu og gagnreyndu meðferðarúrræði sem SPARE byggir á,“ segir Margrét en SPARE byggir á foreldrafærniúrræðinu Parent Mangaement Training – Oregon aðferð (PMTO) sem boðið hefur verið hér á landi í um tvo áratugi. 

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar var boðin samvinna við Háskólann til að reyna úrræðið og gera rannsókn á fýsileika og árangri.

Borgin fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála hjá Félagsmálaráðuneytinu en það eru þær Arndísi Þorsteinsdóttir og Edda Vikar Guðmundsdóttir sálfræðingar og Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir félagsráðgjafi hjá Keðjunni sem halda utan um verkefnið fyrir Reykjavíkurborg.

Foreldrar frá Marokkó, Írak, Sýrlandi, Súdan og Afganistan

Búið er að leiða þrjá hópa, eða um 40 manns, í gegnum verkefnið en fyrsti hópurinn hittist á vordögum fyrra og síðari tveimur lauk í febrúar.

Margrét segir að ákveðið hafi verið að miða að arabísku mælandi fólki vegna fjölda flóttamanna frá þeim heimshluta í öllum löndunum sem tóku þátt í verkefninu. Í hópunum hérlendis tóku foreldrar frá Marokkó, Írak, Sýrlandi, Súdan og Afganistan þátt.

Námskeiðið gengur þannig fyrir sig að um 15 foreldrar barna á aldrinum 2 til 18 ára koma saman í tólf skipti vikulega. Þátttakendur í hópunum voru valdir í samstarfi við Teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamannateymi Reykjavíkurborgar.

Arndís Þorsteinsdóttir sálfræðingur.
Arndís Þorsteinsdóttir sálfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Með hverjum hópi störfuðu svokallaðir millimenningarmiðlarar sem eru arabísku mælandi einstaklingar sem voru sérstaklega þjálfaðir fyrir verkefnið. 

„Þeir voru bæði í því að þýða og miðla menningarlegum þáttum í báðar áttir, frá sem sagt foreldrunum til okkar og frá okkur til þeirra, svo að allir gætu skilið hvorn annan betur til þess að styðja við aðlögunina,“ segir Arndís.

Hvernig á að eiga við erfiðar tilfinningar

„Við vorum að vinna með ákveðin verkfæri til þess að þjálfa foreldrana í notkun á þeim. Þetta eru verkfæri eins og að gefa skýr fyrirmæli, nota jákvæða hvatningu, setja mörk og að hafa vakandi athygli í öllum samskiptum við barnið,“ segir Edda og bætir við að sérstaklega væri unnið með tilfinningar og hvernig sé hægt að eiga við erfiðar tilfinningar.

Edda Vikar Guðmundsdóttir sálfræðingur.
Edda Vikar Guðmundsdóttir sálfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

„Við fundum mjög fljótt hvaða þýðingu þetta hafði fyrir foreldrana og fengum mikið þakklæti frá þeim. Það var svo gaman að sjá hvernig foreldrarnir fóru að blómstra og líða betur. Þar af leiðandi að standa sig betur í foreldrahlutverkinu,“ segir Arndís og bætir við að margir hafi upplifað betri samskipti við börn sín. 

Þá hafi þátttakendur einnig betur áttað sig á menningu Íslands og Evrópu almennt.

„Út af því sem þetta fólk hefur gengið í gegnum var einblínt á áföll og áfallastreitu. Það var því fléttað inn í efnið og kom alveg einstaklega vel út. Foreldrarnir töluðu sjálf um hvað þetta hafði hjálpað á mörgum sviðum eftir að þau komu heim. Bæði í samskiptum við börnin og að eiga við sínar eigin tilfinningar, líka að geta sett börnunum sínum mörk og aðlagast betur inn í samfélagið í raun og veru,“ segir Edda.

Grunnniðurstöður sýna mikla ánægju

Háskóli Íslands vann rannsókn meðfram foreldrastarfinu þar sem árangur af úrræðinu var mældur. Að sögn Margrétar sýna grunnniðurstöður að mikil ánægja sé hjá þátttakendum.

„Við sjáum mælanleg áhrif á það hvað foreldrafærni eykst og hvernig líðan barnanna og foreldranna verður betri,“ segir Margrét og nefnir að niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar fljótlega.

Hinar þjóðirnar sem taka þátt í verkefninu eru nú að vinna með hópa í sínum löndunum. Margrét segir að ekki sé komið á hreint hverjir aðrir muni koma að verkefninu á Íslandi en að stefnt sé að því að aðrar þjóðir í Evrópu fái kynningu á verkefninu þegar niðurstöður allra landa liggi fyrir.

„Ánægjulegt að geta hjálpað foreldrum og börnum“ 

Það er nú Reykjavíkurborgar að halda áfram að leiða verkið hjá sér en að sögn Arndísar fer af stað nýr nýir hópur í lok september.

„Við hjá borginni erum mjög tilbúin til þess að veita þessa þjónustu. Það er mikil eftirspurn,“ segir Arndís og að fagfólk velferðarsviðs sýni verkefninu mikinn áhuga.

„Foreldrar fá hjálp til þess að tala við börnin um erfiða hluti og leiða þau í gegnum erfiðar upplifanir. Þetta fólk hefur bæði þurft að yfirgefa land sitt í ömurlegum aðstæðum og þurft að ganga í gegnum erfiða lífsreynslu. Þau koma svo hingað til lands og eru hólpin og þakklát fyrir að vera komin í öryggi. Það er hins vegar svo margt nýtt fyrir þau, samfélagið er öðruvísi og margt sem þau þurfa að takast á við. Það er svo ánægjulegt að geta hjálpað foreldrum og börnum til þess þeim líður betur og gangi betur á allan hátt,“ segir Arndís og bætir við að verkefnið sé mjög gefandi og þarft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert