Tveir erlendir ferðamenn komust af sjálfsdáðum út úr bíl sínum er kviknaði í honum á Kleifaheiði nálægt Patreksfirði í nótt. Slökkvilið Patreksfjarðar fékk tilkynningu um eldinn á tólfta tímanum og sendi slökkvibíl á svæðið.
Fljótlega eftir að ferðamennirnir komu sér út úr bílnum átti annar bíll leið um heiðina og gat ökumaður gert viðbragðsaðilum viðvart. Ferðamennirnir voru þá orðnir blautir, kaldir og hraktir en slæmt veður var á heiðinni að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra á Patreksfirði. Engin slys urðu á fólki en ferðamennirnir fengu aðhlynningu í sjúkrabíl.
Bíllinn varð fljótt alelda og er gjörónýtur. Davíð segir að vel hafi gengið að slökkva í bílnum eftir atvikum þrátt fyrir slæm skilyrði á heiðinni.