Rannsaka áhrif hvalaskoðunarbáta á hvali

Rannsóknarmenn í verndunarsamtökunum Whale Wise vinna nú að rannsókn á …
Rannsóknarmenn í verndunarsamtökunum Whale Wise vinna nú að rannsókn á áhrifum hvalaskoðunarbáta á hvali á Skjálfanda við Húsavík. Ljósmynd/Rafnar Orri Gunnarsson

Teymi vísindamanna vinnur nú að því að rannsaka hvaða áhrif bátar, þá einkum hvalaskoðunarbátar, hafa á hvali. Rannsóknaraðilar verndunarsamtakanna Whale Wise vinna nú að rannsókninni á Skjálfanda við Húsavík. 

Safna sýnum úr fráblæstri

Sýnum er safnað úr fráblæstri hvala með dróna sem grípur dropa og flýgur með þá í bátinn. Vísindamennirnir reyna að ná sýni þegar hvalaskoðunarbátur kemur upp að hval og einnig sýni eftir að báturinn er farinn, því leikur dróninn stórt hlutverk í rannsókninni. 

Hvalaskoðun hefur notið mikilla vinsælda á síðustu árum og hafa ferðamenn víða að úr heiminum gert sér ferð norður til Íslands til að sjá hvali í sínu náttúrulega umhverfi. Árið 2020 var rólegt í hvalaskoðun vegna heimsfaraldursins en árið 2019 fóru að minnsta kosti 360 þúsund í hvalaskoðun, þar af þriðjungur á Skjálfanda. 

Sýnum er safnað úr fráblæstri hvala með dróna.
Sýnum er safnað úr fráblæstri hvala með dróna. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Fyrri rannsóknir á áhrifum hvalaskoðunar á hvali hafa leitt í ljós minni háttar áhrif á hvalina. Þær rannsóknir voru framkvæmdar með því að fylgjast með hegðun hvalanna á Faxaflóa. 

Fyrsta sinnar tegundar

Rannsókn Whale Wise er sú fyrsta sinnar tegundar framkvæmd við strendur Íslands en hefur verið notuð annars staðar. „Úr sýnunum getum við skoðað hormóna hvalanna, eins og cortisol, sem er stresshormónið, og þannig getum við metið hversu stressaðir hvalirnir verða,“ sagði Tom Grove, meðstofnandi Whale Wise og doktorsnemi við Edinborgarháskóla í viðtali við AFP. 

Alls hefur Whale Wise safnað 59 sýnum við Skjálfanda síðan 2018. Vísindamenn þurfa að minnsta kosti fimmtíu sýni til að fá marktækar niðurstöður en Grove vonast til að ná um hundrað sýnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert