Telur æðri mátt hafa verið við stýrið

Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður kom tveimur rúmenskum karlmönnum til bjargar …
Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður kom tveimur rúmenskum karlmönnum til bjargar á Kleifaheiði í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn Rúnar Þór Pétursson telur æðri máttarvöld hafa verið við stýrið er hann kom tveimur rúmenskum karlmönnum til bjargar eftir að bifreið þeirra varð alelda á miðri Kleifaheiði seint í gærkvöldi.

Æðri öfl eru alltaf með mér í lífinu. Það voru einhver æðri máttarvöld sem sögðu mér að drífa mig af stað,“ segir Rúnar í samtali við mbl.is.

Logandi bíllinn var sem eldhnöttur úr fjarska

Rúnar kláraði að spila á tónleikum með nýja blúsbandinu RGP 103, í félagsheimili á Patreksfirði um tíuleytið þetta kvöld og tók skyndiákvörðun um að keyra suður til Reykjavíkur þrátt fyrir aftakaveður. 

„Þar sem að ég vaki yfirleitt til svona fimm á morgnana ákvað ég að taka sénsinn. Ég veit ekki af hverju en einhverra hluta vegna fannst mér ég bara verða að fara í bæinn svo ég lagði af stað í niðamyrkri, grenjandi rigningu og roki en keyrði bara rólega,“ segir Rúnar. „Þegar ég er búinn að keyra í sirka tuttugu mínútur, hálftíma þá er ég að koma að fyrstu heiðinni á leiðinni suður. Þá tek ég eftir því að það er eins og það sé eldhnöttur í miðju lofti í myrkrinu.“

Hann var þó að eigin sögn fljótur að átta sig á því að þarna væri ekki um eldhnött að ræða og að mögulega væri einhver í hættu.

„Þá reyndi ég að gefa í en bíllinn komst ekki hraðar en 60-70 km/klst því það var svo hvasst. Svo kemst ég loksins upp á heiðina þar sem ég sé alelda bílinn sem var nánast brunninn alveg í sundur. Ég kemst eiginlega ekki framhjá honum því eldurinn er svo mikill þannig ég byrjaði á því að athuga hvort það væru mögulega farþegar í bílnum og lýsti bílljósunum mínum inn í hann í von um einhver myndi sjá þau.“

Í fyrstu hélt Rúnar að alelda Volkswagen-bifreiðin á Kleifarheiði væri …
Í fyrstu hélt Rúnar að alelda Volkswagen-bifreiðin á Kleifarheiði væri eldhnöttur. Ljósmynd/Aðsend

Leitin fyrir neðan bílin hafi þó skilað litlu og tók Rúnar því ákvörðun um að reyna að komast framhjá og uppfyrir logandi bifreiðina þar sem hann fann svo mennina tvo, Rúmena á þrítugsaldri.

„Ég tók smá tilhlaup á bílnum mínum, gaf bara allt í botn framhjá logandi bílnum svo það myndi ekki kvikna í mínum og keyrði svo bara rólega upp fyrir bílinn. Eftir smástund sé ég svo tvo menn reyna að halda sér uppréttum úti í rokinu á veginum.“

Hann hafi þá keyrt upp að mönnunum tveimur og tekið þá upp í bíl sinn en mennirnir tveir voru illa haldnir og greinilega í miklu uppnámi að sögn Rúnars.

„Þeir voru hálf skelkaðir, hóstuðu mikið, skulfu og nötruðu,“ segir Rúnar.

Ekki liggur fyrir hvers vegna kviknaði í bílnum.

Hefðu getað villst og orðið úti

Rúnar hringdi á neyðarlínuna og bauðst til að keyra mennina í átt að sjúkrabílnum. Lögreglan vildi þó frekar að hann biði með mönnunum eftir sjúkrabílnum sem var um hálftíma á leiðinni á vettvang, að sögn Rúnars.

„Svo tóku sjúkraflutningamennirnir og lögreglan við. Ég veit svo eiginlega bara ekkert meira um málið en að mennirnir sluppu.“

Hann telur það þó mikið mildi að hafa fundið mennina hjálparlausa á heiðinni enda hefðu þeir auðveldlega geta villst og jafnvel orðið úti.

„Þeir hefðu ekki getað labbað til baka því það tók hálftíma að keyra þangað frá Patreksfirði og ef þeir hefðu labbað áfram hefði verið klukkutími í næstu byggð. Þeir hefðu sennilega líka villst nema þeir hefðu haldið sig við eldinn í bílnum en þeir voru ábyggilega hræddir um að hann myndi springa,“ segir hann. „Svo eru engar merkingar þarna uppi á heiði. Það mætti alveg merkja þessar heiðar betur og malbika veginn til Patreksfjarðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert