„Þú ert sá allra klikkaðasti!“

Sævar Þorkell Jensson, Keli, í sínu allra heilagasta og með …
Sævar Þorkell Jensson, Keli, í sínu allra heilagasta og með hanskana góðu sem hann notaði til að næla í fingraför Micks Taylors. Eggert Jóhannesson

Árið er 2012. Sævar Þorkell Jensson, aldrei kallaður annað en Keli, er kominn alla leið frá Keflavík til heimsborgarinnar Lundúna til að sjá sinn mann, Mick Taylor, sem í eina tíð var í The Rolling Stones, troða upp í blúsklúbbnum Under the Bridge. Veglegar úrklippubækur tileinkaðar bandinu fræga á vísum stað í skjóðu. Ekki stendur til að brenna af þessu dauðafæri til að hitta goðið að máli og fá það til að árita bækurnar. Eitthvað eru öryggisverðir á staðnum þó að lesa rangt í aðstæður; segja útilokað að hann fái að hitta Taylor en þeir skuli koma úrklippubókunum til hans. Keli hefur enga trú á þeim gjörningi og dregur sig tímabundið í hlé.

Rollingarnir gægjast út um kjallaragluggann hjá Kela.
Rollingarnir gægjast út um kjallaragluggann hjá Kela. Eggert Jóhannesson


Ekki líður á löngu þangað til hann kemur auga á umboðsmann Taylors og gefur sig á tal við hann. Sá er álíka öfugsnúinn og skilningsvana og öryggisverðirnir; áréttar að Taylor sé kominn til að spila en ekki spjalla við aðdáendur. Okkar maður játar sig á hinn bóginn ekki sigraðan; ber sig aumlega, sýnir umbanum úrklippubækurnar og kveðst vera kominn með þær alla leið frá Íslandi. Hittir þar loksins á mannlegan streng og umbinn segir honum að bíða eitt augnablik. Hverfur snöggvast á braut en snýr jafnharðan aftur og gefur Kela merki um að elta sig. Hann megi þó ekki segja nokkrum manni frá þessu, hvorki lifandi né dauðum. Hjartað hamast ótt og títt í brjósti ferðalangsins – hann er að fara að hitta sjálfan Mick Taylor.

Goðið tekur okkar manni vel, eins og öll alvöru goð gera, flettir úrklippubókunum og þeir eiga saman notalega stund í búningsherbergi gítarleikarans. Taylor hleypir þó brúnum þegar Keli klæðir sig óvænt í hvíta hanska og dregur forláta blekpenna upp úr öskju.

„Hvað ertu nú að gera?“ spyr Taylor undrandi.

„Ég keypti þennan penna sérstaklega fyrir þetta tilefni og ef þú áritar bækurnar fyrir mig og leggur pennann að því búnu aftur í öskjuna þá á ég fingraförin þín líka,“ svarar Keli – án þess að blikna.

„Jahérna,“ segir Taylor. „Ég hef nú hitt þá marga klikkaða gegnum tíðina en þú ert sá allra klikkaðasti!“

Þeir springa báðir úr hlátri.

Fyrsta úrklippubókin hans Kela frá árinu 1969, árið sem Brian …
Fyrsta úrklippubókin hans Kela frá árinu 1969, árið sem Brian Jones lést. Eggert Jóhannesson


Taylor kveður með þeim orðum að hann voni að ferðalagið hafi verið þess virði. Þess virði? Maður lifandi. Þess virði?!! Enda þótt Taylor myndi aðeins leika Allt í grænum sjó heila kvöldið kæmi það ekki að sök. Áratuga gamall draumur hefur ræst.

Ítarlega er rætt við Kela um söfnunaráráttu hans undanfarna hálfa öld eða svo í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann á yfir 300 úrklippubækur helgaðar tónlist og er ákaflega útsjónarsamur þegar kemur nað því að fá tónlistarmenn, unga sem aldna, til að árita þær.   

Kaleo tók honum opnum örmum

Það eru ekki bara gömlu brýnin sem rata inn á síðurnar hjá Kela, yngri listamenn á borð við Kaleo, Of Monsters and Men, Baggalútur, Bríet og GDRN eru þar líka, svo einhverjir séu nefndir.

Allt á þetta fólk það sameiginlegt að taka Kela vel þegar hann leitar til þess til að fá bækurnar áritaðar. „Kaleo náði mér strax með Vori í Vaglaskógi. Þegar ég hringdi í þá fyrir nokkrum árum og kynnti mig voru þeir einmitt að „sándtékka“ fyrir tónleika í Gamla bíói og báðu mig bara að koma í hvelli. Þeir tóku mér opnum örmum og finnst alveg geggjað að svona gamall karl eins og ég sé að safna úrklippum um þá. Sama má segja um fleiri; Baggalútarnir voru til dæmis alveg dolfallnir þegar ég sýndi þeim bækurnar í fyrsta skipti. Það gefur mér mikið þegar listamennirnir sjálfir vilja fletta bókunum og rekast jafnvel á eitthvað sem þeir hafa aldrei séð áður.“

Ekki fer á milli mála hvar okkar maður er til …
Ekki fer á milli mála hvar okkar maður er til húsa í Keflavík. Eggert Jóhannesson


Keli kveðst líka hafa heillast strax af Of Monsters and Men. „Ég þekki Leif, pabba Brynjars gítarleikara, vel og þegar ég sagðist vera á leið til Ástralíu í byrjun árs 2020 sagði hann mér að sveitin væri með tónleika þar á sama tíma. Eins og þyrfti að segja mér það! Ég var löngu búinn að kaupa miða. Leifur reddaði okkur hins vegar baksviðspassa og bróðir Julie, sem var með okkur, kom ekki upp orði. Að fá að hitta Of Monsters and Men í eigin persónu. Þetta voru eftirminnilegir tónleikar og ég hef sjaldan orðið eins stoltur á ævinni sem Íslendingur og þegar allir í salnum tóku undir með bandinu – kunnu hvert einasta orð. Það átta sig ekki allir hérna heima á því hvað Of Monsters and Men er vinsæl úti í heimi. Eins Kaleo.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert