Ari Páll Karlsson
Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, hvetur fólk til þess að koma ekki inn á svæðið á morgun vegna Skaftárhlaups. Þar að auki leggja þau áherslu á að sem flestir séu vel upplýstir um stöðuna.
„Við erum búin að setja upp viðvaranir og erum á upplýsingamiðstöðvunum að láta vita af þessu. Það er allt í lagi með þau sem eru þar núna en fólk ætti að huga að því að koma sér af svæðinu í fyrramálið allavega,“ segir Fanney í samtali við mbl.is en búist er við að hlaupið nái að þjóðveginum við Eldhraun annað kvöld.
Spurð hvort hún búist við því að hlaupið standi lengi segir hún enga leið að vita það strax.
„Síðast hlupu báðir katlarnir í einu. Nú er vestari ketillinn búinn að hlaupa og grunnvatnið stendur mjög hátt eftir það,“ segir hún. Þá spilar sú mikla rigning sem hefur verið einnig inn. „Þannig það er allt vatnsósa fyrir. Svo er bara spurning hvað verður mikill kraftur á þessu þegar það kemur niður.“
„En við erum svo sem bara eins og hinir. Erum í sambandi við veðurstofuna og bíðum.“
Fanney segist sjálf stefna á að koma sér heim áður en hlaupið nær þjóðveginum. „Ég vil frekar vera réttu megin.“