Við stöndum á miklum tímamótum

Dr. Bryony Mathew, sendiherra Breta á Íslandi, er ánægð með …
Dr. Bryony Mathew, sendiherra Breta á Íslandi, er ánægð með þær viðtökur sem hún hefur fengið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bara búin að vera hérna í þrjár vikur, en ég á enn eftir að finna eitthvað sem ég kann ekki við, þetta er yndislegt land,“ segir dr. Bryony Mathew, sem nýlega varð sendiherra Breta á Íslandi. „Mér líkar sérstaklega hversu nálægt náttúrunni við erum,“ segir Bryony, en hún er mikið fyrir útihlaup í guðsgrænni náttúrunni.

Hún segist einnig hafa tekið eftir því hvað viðmót og lífsviðhorf þeirra Íslendinga sem hún hafi kynnst séu jákvæð. „Fólk hér hugsar „auðvitað getum við getum þetta, og ef við getum það ekki, þá finnum við leið til þess,“ og þetta passar vel við það hvernig ég nálgast lífið, þannig að mér líður mjög vel hér.“

Mathew hefur starfað í utanríkisþjónustu Breta frá árinu 2005, en hún hefur meðal annars verið í Kambódíu, Kína og á Indlandi. Hún segir að sig hafi langað mikið til Íslands, þar sem landið sé svo náinn bandamaður Breta og nágranni, og þankagangur hér svipaður og á heimaslóðum. „Ég vildi upplifa lífið hér og vera hér með fjölskyldu minni á mjög spennandi tímamótum fyrir ríkin tvö.“

Spurð um hvað henni finnist helst líkt með Íslendingum og Bretum segir hún að báðar þjóðir horfi mikið út á við á umheiminn og hvernig þær passi inn í hann. „Við deilum sögu, við erum tvær þjóðir sæfaranda sem eiga sterk tengsl við hafið og sjávarútveginn.“

Vesturbæjarlaug í uppáhaldi

Mathew hefur verið virk á samfélagsmiðlinum Twitter og hefur hún meðal annars prófað íslenska snúða, farið í ísbíltúr og farið út að hlaupa í íslenskri náttúru, og jafnvel leitað ráða hjá Íslendingum um hvað hún eigi að prófa næst.

Hún segir að sundlaugarnar og heitu pottarnir séu í uppáhaldi hjá sér af því sem hún hafi prófað hér á landi. „Þetta kom mér svo á óvart, allir sögðu mér hvað þetta væri frábært, en þegar maður hefur ekki reynt þetta, þá getur maður ekki vitað hversu sérstakt það er að vera úti í kuldanum og fara svo í heita laug,“ segir Mathew og bætir við að Vesturbæjarlaugin sé í uppáhaldi af þeim sem hún hafi prófað til þessa.

Bryony Matthews.
Bryony Matthews. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Og eitt af því sem ég hef reynt til að kynnast landi og þjóð er að læra íslensku. Það að sitja í heitu pottunum og hlusta á, jafnvel þó ég skilji ekki allt, að þá er yndislegt að geta skilið sumt og líða eins og maður sé hluti af samfélaginu,“ segir Mathew og sýnir fram á íslenskukunnáttu sína með því að segja á lýtalausri íslensku: „Það er mikill heiður að vera næsti sendiherra Breta á Íslandi.“

Þess má geta að Mathew er fyrsti kvenkyns sendiherra Breta hér á landi. „Ég lít ekki endilega á sjálfa mig sem fyrirmynd, en á sama tíma skiptir máli að fólk geti séð, að já, konur geta að sjálfsögðu unnið þessi störf. Ég vona bara að ég verði sú fyrsta af mörgum. “

Hún segir að samfélagsmiðlar geti skipað mikilvægan sess í samskiptum sendiherra og gistiríkjanna. „Það er misjafnt eftir ríkjum, og það er mikilvægt að hugsa um hverja maður er að reyna að ná til.“ Mathew rifjar upp að hún hafi fyrst byrjað að nota Twitter þegar hún var í Kambódíu, og hún þurfti að nýta miðilinn til að finna örugga leið í gegnum vegatálma og hermenn á götum úti. Þannig hafi hún kynnst ýmsum hliðum mannlífsins sem annars hefðu verið sem lokuð bók. „Í gegnum Twitter er jafnvel hægt að koma fundum í kring með fólki sem maður hefði annars aldrei hitt, eða fá uppástungur sem aldrei hefðu borist annars.“

Doktor í taugavísindum

Mathew er með doktorspróf í taugavísindum frá UCL í Lundúnum, en hún er einnig með sálfræðigráðu frá Oxford-háskóla og meistaragráðu í líffræðilegri mannfræði frá háskólanum í Durham. En hvers vegna valdi hún utanríkisþjónustu Breta sem sinn starfsvettvang?

„Ég hef aldrei vitað nákvæmlega hvað ég vildi gera, og á hverjum tíma hef ég ákveðið að gera það sem ég hef áhuga á á þeim tíma.“ Hún segist hafa verið heilluð af taugavísindum og heilanum. „Ég hef eytt miklum tíma í að kryfja heila og unnið í líkhúsum og kannað líkamlega eiginleika heilans. Ég hef reynt að skilja hvernig heilinn gerir okkur að einstaklingum, frábrugðnum hver öðrum.“

Mathew hefur einnig starfað við hinn heimsþekkta barnaspítala í Great Ormond-stræti í Lundúnum og unnið með börnum með heilaæxli. „Og helstu tengslin á milli alls þessa og utanríkisþjónustunnar er fólk. Ég hef eytt miklum tíma í að ræða við fjölskyldur sem hafa gengið í gegnum mjög erfiða tíma þar sem börnin þeirra hafa þurft að fara í skurðaðgerðir. Sú jákvæða lífssýn sem þær höfðu, þrátt fyrir allt sem hafði dunið á sat föst í mér.“

Mathew bætir við hún hafi uppgötvað ótrúleg tengsl á milli fræðabakgrunns síns og þeirra viðfangsefna sem hún hafi þurft að sinna innan utanríkisþjónustunnar. Hún nefnir sem dæmi orkuöryggi, loftslagsbreytingar og heimsfaraldurinn, þar sem bakgrunnur í vísindum hafi komið sér vel.

Ítarlega viðtal er að finna Morgunblaðinu sem kom út 2. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert