Fáir smitast aftur af kórónuveirunni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur borið mikið á því hér á landi að fólk sýkist tvisvar af kórónuveirunni, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

„Síðast þegar við gerðum það upp þá voru það um fimmtán manns sem höfðu smitast aftur, og fengið svona tiltölulega væg einkenni,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

„Það virðist því vera fátítt.“

Fyrri sýking betri en bóluefni

Spurður hvort fyrri sýking af völdum kórónuveirunnar virki betur en bóluefni þegar kemur að vörn gegn veirusmiti kveður hann já við.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að svona náttúruleg sýking sé að virka betur en bólusetningin, í því að koma í veg fyrir smit. Mér finnst það nú nokkuð ljóst, en hún virðist ekki gera það að fullu leyti.

Enda er það þannig að það geta náttúrulega alltaf einhverjir smitast aftur. Sýkingar eru þannig. En væntanlega fá þeir þá bara miklu vægari einkenni en ef þeir hefðu ekki smitast áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert