Hefja Iðnó til virðingar á ný

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum á lokametrunum að klára húsið. Fólk mun sjá nokkrar breytingar hér en við höldum samt í gamla andann,“ segir Björgvin Sigvaldason, verkefnastjóri í Iðnó.

Hið fornfræga menningarhús Iðnó við Tjörnina í Reykjavík verður opnað á ný síðar í mánuðinum. Húsinu var lokað í maí í fyrra þegar ljóst þótti að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri vegna samkomutakmarkana af völdum kórónuveirunnar. Veitingamaðurinn Guðfinnur Sölvi Karlsson, sem meðal annars rekur Prikið og Hressingarskálann, tók við rekstri Iðnó á dögunum og þeir Björgvin ætla sér að hefja húsið til vegs og virðingar á ný.

„Þetta verður opið menningarhús með kaffi og veitingaþjónustu eins og kveðið er á um í lögum hússins,“ segir Björgvin. „Húsið verður opið öllum og hingað geturðu komið og fengið þér kaffi. Svo verða hér fjölbreyttir viðburðir, það er ótrúlegt hvað þessi stærð af húsi hentar mörgum viðburðum. Ég sé fyrir mér að hér verði allt frá tattúfestivölum til danssýninga og tónleika.“

Ætla að gera sögu hússins hátt undir höfði

Iðnó, eða Iðnaðarmannahúsið eins og það var upphaflega nefnt, var reist árið 1896. Leikfélag Reykjavíkur hóf starfsemi sína í húsinu ári síðar og hafði aðsetur þar fram til ársins 1989 er það flutti í Borgarleikhúsið. Auk þess að hýsa leiksýningar var Iðnó lengi eitt helsta samkomuhús Reykjavíkur. Heimastjórn var fagnað í húsinu árið 1904 og húsið þótti hæfa heimsóknum konungs hingað til lands.

„Sagan er merk en húsið hefur gengið í gegnum nokkrar breytingar, misgóðar. Við munum gera sögu hússins hátt undir höfði með myndum á kaffihúsinu,“ segir Björgvin.

Stefnt er að því að formleg opnun hússins verði 18. september en fram að því verða nokkrir viðburðir haldnir þar. Þar á meðal eru viðburðir á Bókmenntahátíð.

Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. september

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert