Um kl. 20 fór rennsli að aukast hratt við Eldvatn í Skaftá og fyrir um klukkustund mældist það rétt undir 240 rúmmetra á sekúndu.
Þetta kemur fram í uppfærslu Veðurstofunnar á frétt sinni um Skaftárhlaupið sem nú gengur yfir. Þar segir einnig að ætla megi að rennsli við Sveinstind sé nær 1.300 rúmmetrum á sekúndu.
Hlaupvatn byrjaði að mælast við Sveinstind upp úr hádegi í dag og jókst rennslið nokkuð hratt eftir það.
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti í kvöld myndskeið af Skaftá meðal annars við Sveinstind. Þau telja að rennsli þar sé komið yfir 1.350 rúmmetra á sekúndu.
Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands sagði í viðtali í kvöldfréttum RÚV að hlaupið virtist vera að þróast hraðar en var árið 2018.
Þá hafði hlaupið sem kom úr vestari katlinum opnað rásir undir jöklinum og Tómas segir að þau hafi vitað að það gæti leitt til þess að hlaup risi brattar. „Það virðist ætla að verða raunin,“ sagði Tómas í viðtali RÚV.
Eftir kl. 22 virðist síðan hafa hægt á vextinum við Sveinstind og sé hraðinn á vextinum borinn saman við hlaupin árið 2018 og 2015 myndi hlaupið í ár mælast mitt á milli.