Stutt í að hlaupið komi undan jökli

Þessi mynd, sem sýnir Eystri-Skaftárketil, er úr safni.
Þessi mynd, sem sýnir Eystri-Skaftárketil, er úr safni. Ljósmynd/Þorsteinn Þorsteinsson

Búist er við því að hlaupið úr Eystri-Skaftárkatli komi undan jökuljaðrinum og að þess verði vart í Skaftá um klukkan 8 eða 9.

Engin merki eru enn um að hlaupið sé komið í ána, að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Íshellan yfir eystri katlinum hefur sigið um 17 til 18 metra frá miðnætti og búist er við því að heildarlækkunin verði 60 til 100 metrar.

Salóme segir að ennþá sé hellings vatn að leggja af stað í hlaupinu.

„Þetta byrjar kannski rólega en mun ná hámarki líklega á sólarhring eða einum og hálfum sólarhring þegar rennslið nær hámarki í ánni. Atburðarásin tekur svolítinn tíma,“ segir hún.

Spurð hvenær hlaupið gæti náð þjóðveginum segir hún að það berist niður að Eldvötnum um átta klukkustundum eftir að hlaupsins hefur orðið vart í Sveinstindi, þar sem fyrsti mælir Veðurstofunnar er í ánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert