Þreyttur á „atlögum“ í garð knattspyrnumanna

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir facebook-færslu sína um mál knattspyrnumannsins Kolbeins Sigþórssonar hvorki fela í sér gerendameðvirkni né drusluskömmun. Hann kveðst einfaldlega vera orðinn þreyttur á „atlögum“ í garð knattspyrnumanna og KSÍ.

Í færslunni birtir hann lögregluskýrslu og fleiri gögn sem tengjast kæru Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur í garð Kolbeins árið 2017. Þar er hún spurð hvort hún hafi fengið áverka.

„Enga sýnilega en ég fór svo upp á slysó á sunnudaginn og þá sagði hann að ég væri með óvenjumiklar bólgur í hnakkaskýlinu eða svona punktarnir sem eru hérna sem gæti lýst því að það hafi þrengt að,“ svarar hún.

Í viðtali við RÚV vegna málsins á sínum tíma sagði hún: „Hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund.“ Fyrir vikið hafi hún verið með áverka í tvær til þrjár vikur eftir hann.

Stjórn KSÍ sagði af sér á dögunum.
Stjórn KSÍ sagði af sér á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í færslu sinni skrifar Sigurður: „Af einhverjum óljósum ástæðum fór konan ekki strax til læknis eftir hið meinta ofbeldi, sem ekki átti að hafa verið lítið, heldur lét læknisheimsókn bíða til sunnudagskvölds. Læknirinn virðist ekki hafa séð eða fundið mikla áverka, ef marka má skýrslu konunnar hjá lögreglu eftir hún hafði lagt fram kæru,“ skrifar hann og birtir einnig twitter-færslu Þórhildar Gyðu þar sem hún segist m.a. hafa „farið í sleik við sugar daddy í gær á svipuðum aldri og pabbi minn“.

Sigurður heldur áfram og segir samtökin Stígamót virðast „vera að tapa trúverðugleika vegna kenninga og öfgafullrar umræðu kynjafræðings um karlmenn og fullyrðinga um nauðgunarmenningu meðal knattspyrnumanna“.

Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. mbl.is/Hari

„Menn sakaðir út og suður“

Spurður, í samtali við mbl.is, hvers vegna hann birti þessa færslu segist Sigurður vera „orðinn þreyttur á þessum atlögum að knattspyrnumönnum, sérstaklega þeim sem hafa átt sér stað upp á síðkastið“.

Hann segist hafa tengst knattspyrnuhreyfingunni í um 30 ár, verið í stjórn knattspyrnudeilda og setið í áfrýjunardómstóli KSÍ mjög lengi. Allir séu að vinna einhver sjálfboðaliðastörf.

„Það er ráðist að hreyfingunni og menn sakaðir út og suður um einhverja nauðgunarmenningu og ofbeldi gagnvart konum. Auðvitað er eitthvað til í þessu öllu en það er hins vegar ekki hægt að leggja eina hreyfingu í rúst með svona atlögum,“ segir Sigurður og nefnir að þegar menn geri hreint fyrir sínum dyrum þá hljóti málum að vera lokið svo að „það sé ekki hægt að taka þá af lífi eftir á“, segir hann.

Þar vísar hann til þess að Kolbeinn, Þórhildur Gyða og Jóhanna Helga Jensdóttir, sem einnig kærði Kolbein fyrir ofbeldi, hafi gert með sér samkomulag um að hann greiddi hvorri þeirra 1,5 milljónir króna í bætur auk þriggja milljóna til Stígamóta. Jafnframt hafi þær dregið kærur sínar til baka á hendur Kolbeini, eins og kemur fram í bréfi sem lögmaðurinn birtir.

Kolbeinn Sigþórsson á æfingu með landsliðinu fyrr á árinu.
Kolbeinn Sigþórsson á æfingu með landsliðinu fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tjáningarfrelsi til að birta gögnin 

Birting Sigurðar á gögnunum sem fylgja færslunni hefur verið gagnrýnd og hann jafnvel sagður brotlegur. Spurður út í þetta segist hann sem einstaklingur mega birta gögnin vegna þess að hann hafi engin tengsl við málið. „Ég hef tjáningarfrelsi eins og blaðamenn og má væntanlega vinna upp úr þeim gögnum sem ég fæ og sé. Ég ber ábyrgð á því, enginn annar.“

Hann vill ekki gefa upp hvar hann fékk gögnin en kveðst ekki hafa taka tekið þátt í málsvörn Kolbeins.

Á að leysa fyrir dómstólum 

Vegna starfa sinna fyrir KSÍ hefur Sigurður verið gagnrýndur fyrir að vera hluti af þöggunartilburðum sambandsins. Hann vísar því á bug og bendir í staðinn á að ef fólk telji sig verða fyrir ofbeldi skuli leysa þau mál hjá lögreglu og síðan fyrir dómstólum en ekki annars staðar.

„Svo getur verið að menn nái sátt og allir séu sáttir og þá ber að virða þá sátt. Í því felst ekki nein þöggun. Fjöldi sakamála fellur niður vegna þess að aðilar ná sáttum af öllum tegundum og gerðum,“ svarar hann.

Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísar gerendameðvirkni á bug 

Sigurður hefur á samfélagsmiðlum verið sakaður um gerendameðvirkni og drusluskömmun. Hvað finnst honum um það?

„Ég er ekki með neina gerendameðvirkni. Ég er að benda á staðreyndir. Ég þoli bara ekki ofbeldi af neinu tagi, hvorki gagnvart konum eða körlum eða gagnvart hreyfingum eins og knattspyrnusambandinu og því ofbeldi sem það hefur verið beitt núna,“ segir hann og kveðst vera „frekar friðarsinnaður maður“. Sömuleiðis sé hann alls ekki að kenna þolendum um, eins og hann hefur verið sakaður um.

Hefur yfirtekið kosningaundirbúninginn

Sigurður hefur fengið mikil viðbrögð við færslunni sinni, bæði góð og slæm. Ætli þessi viðbrögð komi honum á óvart?

„Nei, þetta er málefni sem er búið að yfirtaka kosningaundirbúninginn. Hann hefur alveg horfið. Ég er bara að svara öfgafólki eins og Hönnu Vilhjálmsdóttur [fram­halds­skóla­kenn­ara og formanni jafn­rétt­is­nefnd­ar Kenn­ara­sam­bands Íslands]. Það eru haldnar hér einhverjar ráðstefnur um nauðgunarmenningu á vegum kvenréttindafélagsins og Stígamóta og alls kyns samtaka. Menn eru bornir sökum út og suður án þess að það liggi fyrir rannsókn eða nokkur gögn,“ segir hann og bætir við hann muni halda ótrauður áfram að horfa á íslenska karlalandsliðið spila fótbolta.

Stein­unn Gyðu- og Guðjóns­dótt­ir, talskona Stíga­móta, vildi ekki tjá sig um færslu Sigurðar að svo stöddu þegar mbl.is leitaði viðbragða hennar. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert