Ein af bestu bókum ljóðabókum ársins 2017, að mati gagnrýnanda Morgunblaðsins, var Slitförin eftir Fríðu Ísberg, „heilsteypt verk með áleitna rödd athyglisverðs ljóðmælanda“. Frá þeim tíma hefur Fríða sent frá sér smásagnasafnið Kláða, og aðra ljóðabók, Leðurjakkaveður, og væntanleg er skáldsagan Merking, aukinheldur sem hún er ein af Svikaskáldunum, sem gefið hafa út þrjár ljóðabækur og senda brátt frá sér skáldsögu.
Í viðtali við Fríðu í Dagmáli, þætti sem aðgengilegur er fyrir áskrifendur Morgunblaðsins á mbl.is, segir hún frá fyrstu ljóðabókum sínum og smásagnasafninu Kláða, sem kom út 2018, en einnig kemur fram að væntanleg er fyrsta skáldsaga hennar. Hún ræðir einnig um félagsskapinn Svikaskáld sem hún stofnaði með konum sem allar höfðu verið í ritlistarnámi, en hópurinn kom saman í framhaldi af því að hún var fengin til að ritstýra verki sem kallaðist Örk.
„Það voru strákar með í því verki, en síðan duttu þeir út, þeir voru með svo mikla fullkomnunaráráttu. Þá vorum við eftir fjórar, hittumst á kaffihúsi og ákváðum bara að henda öllu sem var komið inn í þetta skjal og gera eitthvað nýtt. Við hringdum svo í tvær til og við ákváðum að fara eina helgi upp í bústað.
Við komumst mjög fljótt að því að við vorum allar búnar að vera að skrifa í langan tíma en höfðum aldrei gefið neitt út. Ég hafði skrifað tvær ljóðabækur sem höfðu brunnið inni, aðra í menntaskóla sem hér Bar8 og í heimspekinni í háskólanum skrifaði ég ljóðabók sem hét Vindhani. Þannig að ég var búin að brenna mig sjálf á því að gefa aldrei neitt út og orðin svolítið þreytt á þessu. Þarna hitti ég konur sem höfðu upplifað svipaða hluti.
Manni er sagt aftur og aftur að maður debúterar bara einu sinni sem er svo mikið bull; auðvitað á maður bara að vera ungur og prófa þannig að við ákváðum að pönkast, að skrifa um helgina ljóð og innan eins mánaðar þyrftum við að vera búnar að gefa bókina út sjálfar. Það mætti ekki ofhugsa þetta, það mætti ekki fínpússa þetta of mikið og við værum bara að gefa fingurinn á allskonar hugmyndir í samfélaginu, þá fyrst og fremst það að skáldskapur þyrfti að vera rosalega pússaður og ritstýrður og fínn til þess að hann gæti komið út.
Þegar konur vinna saman þá er oft horft á þetta sem saumaklúbb og vissulega er þetta auðvitað kvennamenning, samstaða kvenna og kollektív hugsun er kvenleg. Það er er líka karllægt að vinna saman en það er miklu meira maskúlín að vera með þessa einu karlmannshetju sem reddar deginum. Hversu margar Hollywood-myndir höfum við horft á þar sem Bruce Willis er sá eini sem getur bjargað deginum. Ef hann hefði reynt að fá fleiri með sér í lið þá hefði kannski verið hægt að bjarga ýmsu aðeins fyrr. Er það ekki það sem bjargar heiminum að lokum, það að við stöndum saman, að við deilum ábyrgðinni, deilum verkum og gerum þetta í krafti heildarinnar?“
Hægt er að horfa á allt viðtalið með því að smella hér.