Álverð hækkar vegna valdaráns

Landið er eitt það umsvifamesta í vinnslu á báxíti, mikilvægri …
Landið er eitt það umsvifamesta í vinnslu á báxíti, mikilvægri hrávöru í álvinnslu. Ljósmynd/Samsett

Verð á áli hefur hækkað mikið eftir valdarán í Gíneu á sunnudag. Ástæðan er sögð sú að landið er eitt það umsvifamesta í vinnslu á báxíti, mikilvægri hrávöru í álvinnslu. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir þetta lokahnykk á þeirri miklu hækkun á álverði sem hefur verið það sem af er ári en álverð hefur ekki verið hærra í áratug.

Þá spili inn aukin eftirspurn og áhyggjur af framboði frá Kína. „Það er meðvindur með geiranum þessa dagana,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki Bentsson segir verðþróunina vera góðar fréttir fyrir okkur.
Jón Bjarki Bentsson segir verðþróunina vera góðar fréttir fyrir okkur. Ljósmynd/Aðsend

Minni tenging álverðs við raforkuverð

Spurður út í hvaða þýðingu hækkunin hefur fyrir íslenska hagkerfið segir hann áhrifin dempuð þar sem álverin eru alfarið í erlendri eigu. „Okkar virðisauki af veru þeirra hér er annars vegar í gegnum notkun þeirra á vinnuafli, kaupum á þjónustu og slíku fyrir reksturinn og svo auðvitað sölu raforku til þeirra.

Jón Bjarki nefnir að tenging álverðs við raforkuverð hafi verið minnkuð þótt hún sé enn þá til staðar að hluta til.

Þrátt fyrir að tengingin hafi verið minnkuð muni hækkun af þessu tagi á endanum hafa jákvæð áhrif á rekstur Landsvirkjunar og hinna orkufyrirtækjanna. Þá styrki þetta verulega rekstrargrundvöll Rio Tinto þar sem tengingin við álverð er minnst.

„Þar á bæ hafa menn verið að tala um að hugsanlega loka því álveri, þegar álverðið var sem lægst, en væntanlega er töluvert betra hljóð komið í strokkinn núna þegar verðið hefur hækkað svona mikið,“ segir Jón Bjarki.

Góðar fréttir þrátt fyrir minni áhrif

Hann segir verðþróunina þó vera góðar fréttir fyrir okkur þó svo að íslenska hagkerfið sé ekki jafn beintengt verðsveiflunum líkt og útflutningstölur myndu gefa til kynna.

Spurður hvernig hækkunin hafi áhrif á innflutning segir hann: „Við finnum fyrir því í innflutningsverði á vörum bæði úr áli og öðrum málmum svo ég tali nú ekki um tæki þar sem framleiðsluferlið er kannski orðið svolítið snúnara og hækkun á flutningskostnaði veruleg. Þetta er svona angi af stærri sögu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert