Áslaug telur ummæli Helga vafasöm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst mjög vafasamt af vararíkissaksóknara að vera að tjá sig með þeim hætti sem hann hefur gert á samfélagsmiðlum nú nýlega. Það má alveg gagnrýna hann fyrir það.“ 

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við ákalli Stígamóta, Öfga, Bleika fílsins og fleiri að aðhafast í kjölfar ummæla Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksónara um brotaþola ofbeldis. 

Ekki vikið úr starfi nema að undangengnum dómi

Áslaug Arna bendir á að sjálfstæði ákæruvaldsins sé grundvallarregla í okkar réttarkerfi og ríkissaksóknari sé æðsti handhafi ákæruvaldsins. 

„Bæði ríkissaksóknari og vararíkissaksóknari eru skipaðir ótímabundið rétt eins og dómarar. Dómsmálaráðherra víkur slíkum embættismönnum ekki úr embætti nema að undangengnum dómi.“

Kveðið á um samfélagsmiðlanotkun í siðareglum

„Hvað þetta mál varðar bera að líta til þess að ríkissaksóknari hefur sett siðareglur fyrir ákærendur. Þar kemur skýrt fram að þeir mega ekki rýra traust og trú almennings með framgöngu sinni á opinberum vettvangi. Þetta gildir einnig um háttsemi þeirra utan starfs.

Í reglunum er sérstaklega tekið fram að þátttaka þeirra á samfélagsmiðlum megi ekki verða til þess að hlutleysi þeirra sem ákærenda verði dregið í efa.

Ríkissaksóknari ber stjórnunarlega ábyrgð á því að kynna saksóknurum siðareglurnar og sjá til þess að þeim sé fylgt af þeim saksóknurum sem starfa við embætti hans,“ segir Áslaug Arna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka