„Hef ekki sagt eitt orð um brotaþola“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari bendir á í samtali við mbl.is að hann hafi aldrei viðhaft nein ummæli varðandi brotaþola ofbeldis. Hann hefur verið á milli tann­anna á fólki vegna umdeildra færslna á samfélagsmiðlum sem hann hefur líkað við. Helgi hefur hins vegar afturkallað þau „læk“.

„Ég vil benda á að ég hef aldrei haft nein ummæli uppi um nokkurn skapaðan hlut í sambandi við þetta mál, nema þá skýringu sem ég gaf fjölmiðlum um helgina spurður um viðbrögð einhverra við einhverju „læki“ við frétt,“ segir Helgi.

Málið sem Helgi vísar til er sú umræða sem hefur skapast eftir að Þór­hild­ur Gyða Arn­ars­dótt­ir steig fram í viðtali á RÚV í lok ágúst og greindi frá kyn­ferðisof­beldi sem hún hafi orðið fyr­ir af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu árið 2017. 

„Ég hef ekki haft eitt einasta orð um þetta,“ segir Helgi en Stíga­mót og Öfgar hafa skorað á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að setja Helga af vegna færslnanna sem hann hefur líkað við.

Meðal þeirra er færsla Sig­urðar G. Guðjóns­sonar, hæsta­rétt­ar­lögmanns og for­seta dóm­stóla KSÍ, þar sem hann birtir lög­reglu­skýrsl­ur með per­sónu­grein­an­leg­um gögn­um úr skýrslu­töku Þór­hild­ar Gyðu. 

Í viðtali við mbl.is fyrr í dag sagði Áslaug tjáningu Helga á samfélagsmiðlum vera vafasama. „Mér finnst mjög vafa­samt af vara­rík­is­sak­sókn­ara að vera að tjá sig með þeim hætti sem hann hef­ur gert á sam­fé­lags­miðlum nú ný­lega. Það má al­veg gagn­rýna hann fyr­ir það,“ sagði Áslaug. 

Helgi segir að honum finnist svar Áslaugar yfirvegað en um misskilning sé að ræða í fréttinni að viðbrögð Stígamóta og annarra séu vegna ummæla um brotaþola.

„Það er ekki rétt, ég hef ekki sagt eitt orð um brotaþola eða nokkurn tengdan hennar [Þórhildar] máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert