Frá 2008 til 2020 minnkaði munur á atvinnutekjum karla og kvenna úr 36,3% í 23,5%, óleiðréttur launamunur minnkaði úr 20,5% í 12,6% og leiðréttur launamunur úr 6,4% í 4,1%. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á launamun kynjanna, sem forsætisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Leiðréttur launamunur metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti fái sambærileg laun.
Fram kemur á vef forsætisráðuneytisins, að í rannsókninni, sem Hagstofa Íslands framkvæmdi fyrir forsætisráðuneytið, komi fram að launamunur karla og kvenna hafi dregist saman frá 2008 til 2020, sem fyrr segir, og það eigi jafnt við um atvinnutekjur, óleiðréttan og leiðréttan launamun.
Þá segir, að kynbundin skipting vinnumarkaðar í störf og atvinnugreinar skýri að miklu leyti þann launamun sem sé til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafi minnkað, einkum seinni árin.
Bent er á, að launamunur kynjanna sé mismikill eftir mörkuðum og 2020 hafi leiðréttur launamunur verið minnstur hjá starfsfólki sveitarfélaga.
„Tölurnar sýna að kynbundinn launamunur fer hægt minnkandi og að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa beitt eru að skila árangri. Við sjáum þó að enn er verk að vinna og næstu aðgerðir stjórnvalda hljóta að miða að því að líta sérstaklega til þess launamunar sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í tilkynningunni.
Hún tekur einnig fram, í færslu sem hún birti á Facebook, að hún muni á næstu dögum skipa aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, því baráttunni sé ekki lokið.