„Í sumar var lundaveiði í Vestmannaeyjum leyfð frá sjötta til fimmtánda ágúst, eða í tíu daga. Flestallir lundaveiðimenn í Eyjum létu lundann njóta vafans og aðeins nokkrir fuglar voru veiddir til matar. Þar voru lundaveiðimenn í Elliðaey engin undantekning,“ segir Ívar Atlason Elliðaeyingur, margreyndur bjargveiðimaður og úteyjakarl.
„Tækifærið var einnig notað til að kenna þeim ungu þá list að háfa lunda. Dyttað var að veiðihúsinu í Elliðaey og úteyjarlífsins notið þar sem tíminn skiptir ekki máli og menn eru frjálsir í faðmi náttúrunnar,“ bætti Ívar við.
Hann bendir á að helstu hlunnindi Vestmannaeyja hafi verið gjöful fiskimið í kringum Eyjar og veiðiskapur í björgum. Þessi hlunnindi hafi hvort tveggja verið stunduð frá upphafi byggðar og ráða megi af elstu heimildum að fugl hafi verið snar þáttur í fæðu Eyjaskeggja.