Tafir verða á vinnu við uppsetningu færanlegra kennslustofa á skólalóð Fossvogsskóla og því mun kennsla í 2. til 4. bekk verða áfram í húsnæði Hjálpræðishersins. Eða þar til húsin verða tilbúin.
Í pósti frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem hefur verið sendur á foreldra, segir að samkvæmt upplýsingum frá Terra, sem sér um uppsetninguna, verði tafir á því að þær verði tilbúnar miðað við upphaflega áætlun um að uppsetningu yrði lokið þann 15. september.
„Tafirnar má að mestu rekja til seinkunar á seinni hluta sendingarinnar vegna Covid-19. Að auki eru einingarnar hannaðar til nota í heitari löndum en á Íslandi og hefur vinna við að þykkja útveggi verið meiri en reiknað var með. Þetta hefur einnig tafið framkvæmdaferlið,“ segir í póstinum.
„Af framangreindu er ljóst að kennsla í 2. - 4. bekk mun því verða áfram í húsnæði Hjálpræðishersins eða þar til einingarnar verða tilbúnar.
Starfsfólk Fossvogsskóla og nemendur hafa lýst yfir mikilli ánægju með veru sína í húsnæði Hjálpræðishersins. Þá hafa móttökur starfsfólksins þar verið sérlega hlýjar og notalegar og sannarlega hefur það lagt sitt af mörkum til að öllum líði vel þar,“ segir enn fremur.