Umfangsmiklar vitnaleiðslur í Rauðagerðismálinu

Manndrápið var framið í Rauðagerði í Reykjavík.
Manndrápið var framið í Rauðagerði í Reykjavík. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fyrirtaka í Rauðagerðismálinu svokallaða fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Venju samkvæmt lögðu verjendur fram greinargerðir og önnur gögn og var dagsetning fyrir aðalmeðferð staðfest. 

Vitnaleiðslur í málinu hefjast mánudaginn 13. september. Gert er ráð fyrir verulega umfangsmiklum vitnaleiðslum sem taka munu fjóra daga samfleytt. 

Þann 13. febrúar var Armando Beqirai myrtur að heimili sínu í Rauðagerði í Reykjavík. Fyr­ir ligg­ur játn­ing Angj­el­ins Sterkajs um að hafa skotið hann. Hann játaði sök við þing­fest­ingu en sagðist hafa verið einn að verki.

Aðrir ákærðir fyrir manndrápið eru Murat Selivrada, Claudia Sofia Coelho Carvalho, og Shpetim Qerimi. Claudia er talin hafa fylgst með ferðum Armando á látið vita af þeim, Murat fyrir að hafa fyrirskipað eftirlitið og Shpetim fyrir að hafa ekið Angjelin á vettvang þar sem hann banaði Armando. 

Sjö tungumál

Vitni eru í hið minnsta af sjö þjóðernum; frá Albaníu, Portúgal, Litháen, Rússlandi, Rúmeníu, Serbíu og Íslandi. 

Útvega þarf túlka fyrir öll vitnin og túlk fyrir sakborningana sem ýmist tala rúmensku, portúgölsku eða albönsku. Því er gert ráð fyrir að vitnaleiðslur muni taka þennan langa tíma.

Lögreglustöðin ekki nettengd

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari upplýsti í fyrirtökunni að tvö vitni sem stödd eru í Rúmeníu þurfi að gefa skýrslu símleiðis, en ekki í gegnum fjarfundarbúnað eins og vonast var til þar sem lögreglustöðin þar sem þau eru stödd er ekki nettengd. 

Þá liggur fyrir miskabótakrafa fyrir hönd foreldra, maka og barna hins myrta sem og krafa um bætur fyrir missi framfærslu. 

Armando Beqirai skildi eftir sig konu og son, og var kona hans ólétt af þeirra öðru barni þegar Armando var myrtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert