Rennslismælingar í Eldvatni benda til þess að rennsli sé allt að fimm til sexfalt meira en vanalega á þessum árstíma, að sögn Gunnars Sigurðssonar og Bergs Einarssonar, vatnamælingamanna frá Veðurstofu Íslands.
Blaðamaður mbl.is náði tali af þeim þar sem þeir voru að taka aurburðarsýni og rennslismæla ánna í morgun.
„Við komum hérna seint í gær og mældum rennslið þá og erum að fara að gera það aftur. Það sem við mældum var eitthvað í kringum 650 rúmmetrar á sekúndu. Það er alveg hellingur en alveg töluvert minna en var í síðasta hlaupi. Samkvæmt útreikningum ætti rennslið að vera núna í kringum 600 rúmmetra og það á að vera í hámarki. [...] Meðal rennsli á ánni á þessum árstíma er í kringum 100 til 150 rúmmetrar á sekúndu,“ sagði Gunnar.
Eins og stendur er vatnið úr ánni ekki enn komið upp á þjóðveg en að sögn Gunnars er viðbúið að vatnið muni dreifa meira úr sér um láglendið á næstu dögum þó talið sé að hlaupið hafi nú þegar náð hámarki.
„Hérna í hrauninu er alveg fullt af vatni og þar fer ekkert að lækka strax. [...] Svo þegar vatnið rennur út á hraunið þá hægt og rólega þéttist það svo jökulvatnið rennur alltaf lengra og lengra eftir hrauninu með hverju hlaupinu sem kemur,“ sagði Gunnar.
Rétt áður en blaðamaður náði tali af Gunnari og Berg höfðu þeir sótt aurburðarsýni úr ánni í gamlar mjólkuflöskur sem þeir munu flytja á Veðurstofuna þar sem þeir vinna úr sýninu.
„Við erum líka að taka sýni til að meta hversu mikið grugg er í vatninu og það er náttúrulega mjög gruggugt,“ sagði Gunnar.
Hvað mun þessi mæling geta sagt okkur?
„Hún segir framburðinn, segir hversu mikið áin er að flytja af landinu og út í sjó. Það er náttúrulega margfalt það sem hún flytur í þessum stórhlaupum, miðað við hvað hún er að flytja venjulega. Þetta er hluti af því sem er að valda bændum í svetinni vandræðum. Það er þetta grugg sem er að koma upp á túnin og er að blása yfir,“ sagði Bergur.