Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs borgarinnar, segir uppbyggingu bílakjallara á Héðinsreit skapa tækifæri til að fækka bílastæðum ofanjarðar í hverfinu. „Það er mín stefna að fækka bílastæðum, en auðvitað er þetta íbúðahverfi og gera verður ráð fyrir einhverjum stæðum,“ segir Pawel.
Þessi umbreyting hverfisins hafi komið til umræðu hjá borginni.
„Við höfum rætt um það í skipulagsráði að bæta göngutengingar á þessu svæði. Það eru kannski þrjár gönguleiðir; Mýrargata, Vesturgata og Nýlendugata, og engin þeirra er fullkomin fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þannig að nú þegar þessi íbúðabygging fer fram vil ég fara að skoða fljótlega hvernig við getum bætt þessar tengingar.
Ég vil hjólastíga. Ég vil skoða hvort við getum gert upp Vesturgötuna með því til dæmis að setja gangandi í meiri forgang og með því að gera hana að vistgötu eða breikka gangstéttir. Svo eiga hjólreiðamenn erfitt með að fara um Mýrargötuna á sumum stöðum og við þurfum að skoða leiðir til að bæta úr því.“