Krabbameinsfélagið bauð til opins fundar í dag um nýtt fyrirkomulag leghálsskimana. Meðal gesta var Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og segir hún í samtali við mbl.is að fundurinn hafi gengið vel.
„Þetta var mjög góður fundur og jákvætt hjá Krabbameinsfélaginu að taka þetta skref að bæði byggja brýr og leggja áherslu á fræðslu,“ segir Sigríður en um síðustu áramót kom það í hlut Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að framkvæma skimanir fyrir leghálskrabbameini, áður var það í höndum Krabbameinsfélagsins.
Margir hafa gagnrýnt flutning skimananna frá Krabbameinsfélaginu, meðal annars aðgerðarhópurinn „aðför að heilsu kvenna“.
Er farin að ríkja meiri sátt um flutninginn, fyrst að Krabbameinsfélagið stendur fyrir þessum fundi?
„Við hjá heilsugæslunni viljum bara vera í sem bestu samstarfi við Krabbameinsfélagið og metum mikið þeirra frumkvæði og þeirra vinnu í áratugi, félagið stóð að frumkvöðlastarfi. Þessi breyting er búin að eiga sér mun lengri aðdraganda en hefur verið rætt um,“ segir Sigríður og nefnir að undirbúningur að nýja fyrirkomulaginu hófst árið 2018.
„Meiningin er að færa skimanir nær almenningi og þá er gott að muna eftir því að heilsugæslan er a stunda skimanir og forvarnir alla daga í mæðravernd, ungbarnavernd, öldrunarþjónustu o.s.frv. Þetta er því kannski tímana tákn og við erum alls ekki í slag við Krabbameinsfélagið. Við viljum ekkert annað en gott samstarf og gott samtal,“ segir Sigríður og bætir við að Krabbameinsfélagið muni beita sér enn frekar í fræðslu og upplýsingagjöf.
„Það er mikilvægt að muna að þetta er skimun en ekki krabbameinsskoðun. Það er verið að skima fyrir ástandi sem getur leitt til krabbameins. Þetta er því ekki eins brátt eins og umræðan hefur verið,“ segir Sigríður og nefnir að meðal annars er verið að leita eftir HPV-veirunni í skimununum en hún er grunnorsök forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi.
Sigríður segir að sýnatökur hjá heilsugæslunni hafa gengið mjög vel. „Því er þó ekki að neita að við hefðum viljað að allt ferlið gengi betur,“ segir Sigríður og nefnir að skimunarskráin hafi ekki verið tilbúin þegar heilsugæslan tók við.
„Það hefur því verið meiri töf á birtingu svara heldur en við hefðum viljað sjá. Ég tel hins vegar víst að ferlið muni jafnast meira út eftir því sem líður á tímann. Við skiljum vel að fólk vilji fá svör úr sýnatöku sem það fer í en það er náttúrulega þannig að ef það er eitthvað sérstakt sem konur hafa áhyggjur af þá eiga þær ekki að fara í skimun heldur í skoðun.“